Erlent

232 tennur teknar úr munni pilts á Indlandi

Randver Kári Randversson skrifar
Alls tók sjö klukkustundir að framkvæma aðgerðina.
Alls tók sjö klukkustundir að framkvæma aðgerðina. Vísir/AFP
Tannlæknar á Indlandi drógu á mánudag 232 tennur úr 17 ára gömlum pilti í aðgerð sem tók sjö klukkustundir að framkvæma. Ekki er vitað til þess að svo margar tennur hafi verið fjarlægðar úr munni nokkurs manns áður. BBC greinir frá þessu

Ashik Gavai var fluttur á spítala í Mumbai með bólginn góm, eftir að hafa kvartað yfir sársauka í gómi í um 18 mánuði. Læknum í heimaþorpi hans hafði ekki tekist að greina orsök sársaukans, en góðkynja æxli í kjálkabeini veldur þessari miklu tannmyndun.

Tveir skurðlæknar ásamt tveimur aðstoðarmönnum framkvæmdu aðgerðina og þurfti að notast við hamar og meitil til að fjarlægja æxlið þar sem ekki reyndist mögulegt að skera það burt. Tennurnar komu þá í ljós ein af annarri. Að sögn tannlæknanna líktust þær hvítum perlum, og var þeim raðað gaumgæfilega upp, en eftir því sem á leið fóru læknarnir að þreytast. Alls urðu tennurnar 232 sem dregnar voru úr munni piltsins.  

Tilfelli sem þetta eru mjög sjaldgæf, en ekki er vitað um að svo margar tennur hafi verið fjarlægðar úr munni nokkurs manns áður. Dæmi eru um að áður hafi verið fjarlægðar 37 tennur af sömu sökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×