Erlent

22 handteknir eftir gíslatökuna í Istanbúl

Atli Ísleifsson skrifar
Bandaríkin, Evrópusambandið og Tyrkland skilgreina öll DHKP-C sem hryðjuverkasamtök.
Bandaríkin, Evrópusambandið og Tyrkland skilgreina öll DHKP-C sem hryðjuverkasamtök. Vísir/AFP
Lögregla í Tyrklandi hefur handtekið 22 í kjölfar gíslatökunnar í Istanbúl þar sem tyrkneskur saksóknari lést, auk tveggja gíslatökumanna.

Lögregla handtók fólkið í borginni Antalya í suðurhluta landsins. Hinir handteknu eru stúdentar með tengsl við öfgahópinn DHKP-C sem bar ábyrgð á gíslatökunni.

Fréttaveitan Dogan segir að stúdentarnir hafi ætlað sér að framkvæma sambærilegar gíslatökur í Antalya.

Saksóknarinn sem var tekinn í gíslingu hafði rannsakað mál fimmtán ára drengs sem hafði látist í kjölfar sára sem hann hlaut eftir átök við lögreglu í mótmælum sumarið 2013.

Drengurinn lést eftir að hafa verið 269 daga í dái. DHKP-C segir að með árás gærdagsins hafi verið að hefna fyrir dauða drengsins.

Tyrkneskar öryggissveitir gerðu áhlaup á dómshúsið þar sem saksóknarinn hafði verið í gíslingu og skutu gíslatökumennina til bana. Saksóknarinn lést á sjúkrahúsi af völdum sára sinna nokkru síðar.

Bandaríkin, Evrópusambandið og Tyrkland skilgreina öll DHKP-C sem hryðjuverkasamtök.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×