Erlent

10 mánaða stjórnarkreppu afstýrt á Spáni

Una Sighvatsdóttir skrifar
Mariano Rajoy verður forsætisráðherra Spánar annað kjörtímabil, í þetta sinn í minnihlutastjórn.
Mariano Rajoy verður forsætisráðherra Spánar annað kjörtímabil, í þetta sinn í minnihlutastjórn.
Mikið hefur gengið á í spænskum stjórnmálum frá því þingkosningar fóru fram í desember 2015. Þar höfnuðu kjósendur tveggja flokka kerfinu sem verið hafði við lýði í áratugi þar sem Íhaldsmenn og Sósíalistar skiptust á að fara með stjórnartaumana.

Ríkisstjórn íhaldsmannsins Mariano Rajoy féll og tveir nýir flokkar fengu góða kosningu, róttæki vinstri flokkurinn Podemos, eða Við getum, og Borgaraflokkurinn, Ciudadanos. Í fyrsta skipti á lýðveldistímanum fékk enginn stjórnmálaflokkur hreinan meirihluta.

Djúpstæður ágreiningur milli flokka

Síðan hefur hvorki gengið né rekið við að mynda samsteypustjórn en forsætisráðherrann Rajoy hefur leitt bráðabirgðarstjórn á meðan. Blásið var til kosninga að nýju í júní síðastliðnum og þar varð niðurstaðan svipuð, engin flokkur náði meirihluta en Partido Popular, Lýðflokkur Rajoys, styrkti stöðu sína.

Til þess að starfsfriður yrði um starminnihlutastjórn þurfti Rajoy hinsvegar nægilegan stuðning úr röðum þingheims til þess að standast vantraustskosningu. Þar voru Sósíalistar í lykilstöðu sem annar stærsti flokkkurinn en djúpstæður ágreiningur milli flokkanna eftir áratugi á öndverðum meiði stjórnmálanna virtist myndu standa því fyrir þrifum og stefndi því allt í þriðju þingkosningarnar áður en árið yrði á enda.

Spánverjar hundleiðir á pólítíkusunum

Almenningur á Spáni er hinsvegar orðinn langþreyttur á ástandinu og vill ekki kjósa enn einu sinni. Sósíalistar óttuðust því að missa stuðning sinna kjósenda með því að framlengja stjórnarkreppuna frekar og boluðu leiðtoga sínum, Pedro Sanchez, út fyrr í þessum mánuði.

Eftir fundahöld í dag tilkynnti svo ný stjórn flokksins að Sósíalistar muni sitja hjá við vantraustskosningu á hendur Rajoy og greiða honum þar leið sem forsætisráðherra minnihlutastjórnar út kjörtímabilið.

Fyrsta verk ríkisstjórnarinnar verður væntanlega að koma fjárlögum gegnum þingið eftir langa bið. En þrátt fyrir stjórnarkreppu hefur verið 3% hagvöxtur á Spáni frá ársbyrjun 2015 og atvinnuleysi á niðurleið en það má þakka metfjölda ferðamanna sem streyma í sólina og kæra sig kollótta um pólitíkina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×