Erlent

10 ára gamalt finnskt undrabarn fékk verðlaun frá Facebook fyrir að finna galla í Instagram

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
10 ára gamall Finni fékk 10 þúsund dollara verðlaun, um 1,2 milljónir króna, frá Facebook fyrir að finna galla í samfélagsmiðlinum Instagram. Hann fann leið til þess að komast inn á netþjóna Instagram og gat hann eytt athugasemdum og textum frá hvaða notendum sem er.

Drengurinn heitir Jani og býr í Helsinki en í samtali við finnska fjölmiðilinn Iltalethi sagðist hann hafa komist inn á netþjóna Instagram sem gerði honum kleyft að eyða texta við hvaða mynd sem er á samfélagsmiðlinum vinsæla. Sýndi hann fram á það með því að eyða texta við mynd sem Instagram setti inn til þess að sjá hvort að Jani gæti raunverulega gert það sem hann sagðist geta gert.

Facebook heldur úti sérstöku kerfi þar sem peningaverðlaun eru í boði fyrir þá sem finna alvarlega galla í tölvukerfum sem þjónusta starfsemi Facebook, þar á meðal Instagram, sem er í eigu Facebook.

Faðir drengsins segir að Jani og tvíburabróðir hans hafi áður fundið galla í vefsíðum en þeir hafi þó aldrei verið það stórvægilegir að þeir hafi fengið greitt fyrir það, þangað til nú. Athygli vekur að Jani er ekki einu sinni nógu gamall til þess að stofna sinn eigin Facebook-reikning, aldurstakmarkið er þrettán ár.

Á síðasta ári greiddi Facebook rétt tæplega eina milljón dollara, um 120 milljónir íslenskra króna, til 210 einstaklinga sem fundu alvarlega galla á tölvukerfum Facebook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×