Innlent

"Við viljum peningarnir fari í velferð en ekki vexti“

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, telur rétt að skoða sölu á hlut í Landsvirkjun til lífeyrissjóðanna til að grynnka skuldir ríkisins, en þriðjungshlutur gæti skilað rúmlega 100 milljörðum króna í ríkissjóð. Hann segir algjört forgangsmál að grynnka skuldirnar því peningar ríkissjóðs eigi að fara í „velferð en ekki vexti."

Bjarni var með málstofu fyrir sjálfstæðismenn í Valhöll í morgun undir yfirskriftinni „Áskoranir á kosningaári." Bjarni fór vítt yfir sviðið en sagði að í grunninn væru átakalínurnar fyrir kosningarnar í vor býsna skýrar: „Í grunninn eru pólitísku deilumálin nú um margt kunnugleg. Umræðan er af sama toga og við höfum átt í svo áratugum skiptir. Við viljum stækka kökuna, en vinstrimenn segja lausn allra vandamála felast í nýjum aðferðum við að skera kökuna," sagði Bjarni.

Eins og fréttastofa hefur greint frá væri hægt að bjóða upp á skattalaust ár fyrir heimilin í landinu með með útgáfu nýs hlutafjár upp á 25 prósent í Landsvirkjun. Eða leiðréttingu á fjárlagahalla yfirstandandi árs, næsta árs og gott betur. Fyrir 25 prósent af nýju hlutafé gætu fengist 75-100 milljarðar króna, en Landsvirkjun hefur verið verðlögð á rúmlega þrjú hundruð milljarða króna.

Lífeyrissjóðirnir hafa sýnt þessu mikinn áhuga og þá væri hægt að selja hlutafé í fyrirtækinu með því skilyrði að ríkissjóður hefði forkaupsrétt að hlutafénu í Landsvirkjun ef það yrði selt annað.

Núverandi stjórnarflokkar hafa ekki viljað skoða þetta vegna ákvæða í stjórnarsáttamála sem girðir fyrir breytingar á eignarhaldi orkufyrirtækja í opinberri eigu. Bjarni var spurður um þetta á fundinum í dag. „Það er vissulega stórt skref, en það er miklu minna skref en að hleypa einkaaðilum að Landsvirkjun að taka lífeyrissjóðina þar inn sem meðeigendur. Miklu minna skref. Og við verðum að taka þá umræðu í ljósi skuldastöðu ríkisins og úrræða til að lækka vaxtakostnað. Vegna þess að við viljum peningarnir fari í velferð en ekki vexti. Eignasala ríkisins til að létta skuldabyrðina er leið sem verður að koma þar til skoðunar," sagði Bjarni í Valhöll í dag. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×