Lífið

„Rosalega töff að svona maður sé með verk eftir mig upp á vegg“

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Oddur segir það sannarlega mikinn heiður að Brian hafi keypt mynd af honum.
Oddur segir það sannarlega mikinn heiður að Brian hafi keypt mynd af honum. Vísir/Jón Tryggvi
„Þetta er auðvitað rosalega mikill heiður fyrir mig og rosalega töff að svona maður sé með verk eftir mig upp á vegg hjá sér,“ segir sjálfmenntaði listamaðurinn og álbóndinn Oddur Eysteinn Friðriksson, eða Odee eins og hann kallar sig.

Brian Muir, maðurinn sem bjó til upprunalegu búningana fyrir Star Wars-sögupersónur á borð við Darth Wader og Stormtrooper-hermennina, keypti listaverk af Oddi á dögunum. Verkið heitir Znow Walker og er prentað í ál.

Brian þessi hefur unnið við fjöldann allan af kvikmyndum, nú síðast myndirnar Guardians of the Galaxy, Snow White and the Huntsman, Harry Potter and the Half-Blood Prince og Harry Potter and the Order of the Phoenix.

Odee hefur undanfarin tvö ár vakið athygli fyrir myndir sem hann gerir og prentar í ál. Það var einstaklingur í íslenska Star Wars-aðdáendaklúbbnum sem benti Brian á myndirnar hans Odee.

„Ég var með möppu með verkum sem voru innblásin af Star Wars, í kjölfarið hafði hann samband við mig og fannst þetta vera helvíti flott verk. Hann pantaði svo hjá mér útgáfu af verki sem ég var búinn að selja. Ég fékk leyfi frá þeim sem hafði keypt upprunalega verkið til að gera minna eintak fyrir hann,“ segir Odee sem er að vonum ánægður. Verkið hangir nú uppi á vegg á skrifstofu Brians. 

Brian hefur sett verkið upp á vegg á skrifstofunni hjá sér.
Oddur kallar sig álbónda endar vinnur hann mikið með ál í list sinni og starfar svo einnig í álverinu á Reyðarfirði. Hann vinnur verk sín þannig að hann vinnur upp úr öðrum verkum og lætur prenta í ál. Myndirnar hafa selst vel.

„Ég byrjaði að selja í maí og hef selt 121 verk síðan,“ segir hann. Odee segist ekki hafa fengið fleiri fyrirspurnir frá Star Wars-aðdáendum eftir að Brian keypti verkið hans en hann segir aldrei að vita nema svo verði.

„Brian er núna á Star Wars-ráðstefnu í Düsseldorf. Hann ætlaði allavega að mæla með þessu þannig að það kemur bara í ljós.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×