Innlent

„Ótækt er að heill landshluti verði skyndilega sambandslaus“

Atli Ísleifsson skrifar
Bilunin sem varð í stofnneti Mílu þann 26. ágúst er sú umfangsmesta sem orðið hefur á fjarskiptaneti Mílu frá því að fyrirtækið var stofnað árið 2007.
Bilunin sem varð í stofnneti Mílu þann 26. ágúst er sú umfangsmesta sem orðið hefur á fjarskiptaneti Mílu frá því að fyrirtækið var stofnað árið 2007. Vísir/Egill
Míla hefur beðist afsökunar á þeirri bilun sem varð í stofnneti Mílu á Vestfjörðum á þriðjudag. Fjarskiptaleið Símans til Vestfjarða féll út og viðskiptavinir Símans urðu með öllu sambandslausir í rúma sex tíma, eða frá klukkan 9.30 til 15.45 þegar viðgerð var lokið.

Í fréttatilkynningu frá Mílu segir að bilunin hafi vakið upp margar spurningar varðandi fjarskipti á Vestfjörðum. „Ótækt er að heill landshluti verði skyndilega sambandslaus enda mikil hætta sem getur hlotist af því þegar sjúkrahús, lögregla og aðrar mikilvægar stofnanir standa uppi sambandslausar, auk heilmikilla óþæginda fyrir íbúa og atvinnulíf á svæðinu.“

Í tilkynningunni segir að bilunin sem varð í stofnneti Mílu á Vestfjörðum á þriðjudag 26. ágúst, hafi fyrst sést í stjórnkerfum Mílu um klukkan 9.30. „Þá var strax hafist handa við að leita bilunarinnar í gegnum stjórnkerfi Mílu í Reykjavík. Kerfið gat staðsett bilunina á milli Krossholts og Patreksfjarðar en ekki nákvæmar en það. Því var, vegna alvarleika bilunarinnar, ákveðið að senda viðgerðateymi strax af stað með þyrlu, bæði til Krossholts og Patreksfjarðar, til að leita bilunarinnar. Samstarfsaðili Mílu hélt einnig af stað með búnað til viðgerða á ljósleiðara, ef vera skyldi að leiðarinn hefði laskast. Starfsmenn Mílu á Ísafirði fóru inn í Ísafjarðardjúp, þar sem búnaður fyrir varaleiðina vestur er staðsettur.

Við nánari athugun kom í ljós að um bilun í búnaði var að ræða í tækjahúsi Mílu í Krossholti sem olli því að aðalleiðin lá niðri. Íbúar á Vestfjörðum hefðu ekki orðið fyrir jafn miklu sambandsleysi, ef varaleiðin hefði verði að fullu virk en vegna bilunar í búnaði varaleiðar, þá var hún óvirk að hluta.Varaleið getur þó aldrei annað allri umferð sem vanalega fer um aðalleið, svo áhrif bilunar verður alltaf einhver.

Það var fyrr í ágúst sem bilunin varð í örbylgjubúnaði varaleiðar Mílu í Ísafjarðardjúpi. Svo illa vildi til að sá búnaður var enn í viðgerð þegar bilunin varð á aðalleiðinni á þriðjudag,  sem leiddi til þess að varasambandið náði ekki að bera alla þá umferð sem þurfti til að viðhalda samböndum á svæðinu, því fór sem fór. Fjarskiptaleið Símans til Vestfjarða féll út og viðskiptavinir Símans urðu með öllu sambandslausir í rúma 6 tíma, eða frá klukkan 9.30 til 15.45 þegar viðgerð var lokið.“

Í tilkynningunni segir að bilunin sem varð 26. ágúst sé án nokkurs vafa sú umfangsmesta sem orðið hefur á fjarskiptaneti Mílu frá því að fyrirtækið var stofnað í apríl 2007. „Þetta er í fyrsta skipti sem bæði aðal- og varaleið bila á sama tíma. Engin bilun í kerfinu hefur valdið jafn miklum erfiðleikum fyrir stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga. Míla biður hlutaðeigandi afsökunar á óþægindunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×