Lífið

„Lærðu að leggja og ekki fjölga þér fáviti “

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Smokkurinn og skilaboðin sem biðu Sigurðar.
Smokkurinn og skilaboðin sem biðu Sigurðar. MYND/SIGURÐUR PÁLL
„Ég átti þetta fyllilega skilið og það var frábært að fá þessa áminningu,“ segir Sigurður Páll Sigurðsson um miða sem komið hafði verið fyrir á bíl hans við Lokastíg í gærkvöldi.

Sigurður hafði skotist inn í íbúð í hans eigu um stundarsakir og skálagt bíl sínum svo að húdd hans stóð inn á nærliggjandi gangstétt. Þegar hann kom til baka beið hans miði, sá sem sjá má hér til hliðar, með skilaboðunum „Lærðu að leggja og ekki fjölga þér fáviti,“ mynd af uppréttri löngutöng og áföstum smokki.

„Þetta er náttúrulega algjör perla og eins og ég sagði á Facebook-síðu minni þá mun ég svo sannarlega vanda mig næst,“ segir Sigurður og greinilegt er að hann hafði mjög gaman af uppátækinu.

Þó svo að hann viti ekki með vissu hver kom miðanum fyrir undir rúðuþurrkunni grunar hann að íbúar á Lokastíg eigi í hlut. „Enda voru ekki nema um 60 sentímetrar frá húddi bílsins að næstu útidyrahurð þannig að maður skilur alveg að það hefur verið erfitt að athafna sig þarna, sérstaklega ef þau hafa verið með barnavagn,“ segir Sigurður.

Þrátt fyrir að smokkurinn sem fylgdi skilaboðunum muni eflaust koma að góðum notum segir Sigurður að hann komi fullseint ef markmiðið var að draga úr fjölgun ökumannsins. Hann eigi þrjú börn fyrir.

„Það eru þrír fávitar í umferð og þar af er einn kominn með bílpróf,“ segir Sigurður og hlær við. Þeir hafi nú þegar fengið að heyra af axarsköftum föður síns og læri vonandi af mistökum hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×