Viðskipti innlent

„Krafa um gjaldþrotaskipti setur alla starfsemi Valitor hf. í uppnám“

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Sigurður G. Guðjónsson lögmaður Valitors, og Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Datacell.
Sigurður G. Guðjónsson lögmaður Valitors, og Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Datacell. Vísir
Sigurður G. Guðjónsson lögmaður Valitors vildi gera Sveinn Andra Sveinsson lögmann Datacell persónulega ábyrgan fyrir tjóni sem Valitor yrði fyrir vegna kröfu um gjaldþrotaskipti. 

Þetta kemur fram í svarbréfi Sigurðar við greiðsluáskorun Datacell og Sunshine Press Productions til Valitors, útgefanda VISA á Íslandi, sem fréttastofan hefur undir höndum. 

Fyrirtækin tvö, Datacell og Sunshine Press Productions önnuðust söfnun styrktarfjár fyrir hönd uppljóstrunarsíðunnar Wikileaks. 

Fengu Sigurjón til að reikna út tjónið

Með dómi Hæstaréttar frá 24. apríl 2013 var viðurkennt að það hafi verið ólögmæt ráðstöfun af hálfu Valitor að loka án fyrirvara greiðslugátt vegna söfnunar styrktarfjárins og fyrirtækinu var gert skylt, að viðlögðum dagsektum, að opna fyrir greiðslugáttina að nýju. 

Eins og Stöð 2 greindi frá á föstudag lögðu fyrirtækin tvö fram í Héraðsdómi Reykjaness kröfu um að Valitor yrði tekið til gjaldþrotaskipta vegna ógreiddrar skaðabótakröfu upp á 10,3 milljarða króna með vöxtum. 

Samhliða þessu hafa fyrirtækin höfðað skaðabótamál á hendur Valitor og verður fyrirtaka í því máli næsta fimmtudag. Þar er gerð krafa um rúmlega 8,1 milljarð króna. Til vara er gerð krafa um bætur samkvæmt niðurstöðu dómkvadds matsmanns en til þrautavara er farið fram á að bætur verði dæmdar að álitum. 

Fyrirtækin fengu Sigurjón Þ. Árnason fyrrverandi bankastjóra Landsbankans til að reikna út ætlað tjón sitt vegna styrktarfjár sem ekki barst þegar greiðslugáttin var lokuð. Var það niðurstaða Sigurjóns að tjónið gæti verið á bilinu 1-8 milljarðar króna. Var í kjölfarið gerð ítrasta krafa ásamt vöxtum. 

Sveinn Andri Sveinsson ásamt Ólafi Vigni Sigurðssyni öðrum stofnanda Datacell.
Hvöss bréfasamskipti

Áður en krafa um gjaldþrotaskipti var lögð fram áttu Sigurður G. Guðjónsson og Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Datacell og Sunshine Press Productions, í bréfasamskiptum eftir að fyrirtækin tvö skoruðu á Valitor að greiða skaðabætur. 

Í einu svarbréfa Sigurðar til Sveins Andra segir hann orðrétt: „Verði af þeirri hótun þinni fyrir hönd umbjóðenda þinna að leggja fram kröfu um gjaldþrotskipti á hendur Valitor hf. munt þú persónulega og forsvarsmenn þeirra félaga og félögin sjálf verða gerðir ábyrgir in solidum fyrir öllu því tjóni sem Valitor hf. og hluthafa félagsins kunna að verða fyrir vegna þess að krafa um gjaldþrotaskipti er sett fram. Þér er væntanlega kunnugt um að Valitor hf.  lýtur ströngu eftirliti opinberra aðila og rekur leyfisbundna starfsemi. Krafa um gjaldþrotaskipti setur alla starfsemi Valitor hf. í uppnám um leið og hún kemur fram. Krafa um gjaldþrotaskipti eykur ekki líkur umbjóðenda þinna á greiðslu meintrar bótakröfu, heldur kemur miklu frekar í veg fyrir greiðslu bóta, ef svo ólíklega vildi til að dómstólar féllust í óvissri framtíð á að umbjóðendur þínir ættu einhverja bótakröfu.“

Þrátt fyrir þetta sagði Sigurður í fréttum Stöðvar 2 að krafa um gjaldþrotaskipti hefði lítil áhrif á rekstur Valitors. Hann sagðist jafnframt ekki hafa nokkra trú á að neinn dómstóll tæki hana til greina. 


Tengdar fréttir

Wikileaks collectors demand bankruptcy for Valitor

Two companies, handling the collection of the funding for Wikileaks, have demanded that Valitor, which handles VISA in Iceland, should be made bankrupt due to an unpaid claim for damages, amounting to about 10 billion kronas

Hafa krafist þess að Valitor verði tekið til gjaldþrotaskipta

Tvö fyrirtæki sem önnuðust söfnun styrktarfjár fyrir Wikileaks hafa krafist þess að Valitor, útgefandi VISA á Íslandi, verði tekið til gjaldþrotaskipta vegna ógreiddrar skaðabótakröfu sem er rúmlega 10 milljarðar króna með vöxtum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×