Viðskipti innlent

„Kjöraðstæður til þess að afnema höftin“

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
„Við erum alveg sannfærðir um það að þetta sé rétti tíminn. Við höfum séð töluvert mikla styrkingu á gengi krónunnar á undanförnum misserum. Gjaldeyrisforði Seðlabankans er mjög sterkur þannig að efnahagslegur styrkur okkar til þess að stíga skref af þessum toga er alveg óumdeildur, “ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í kvöldfréttum Stöðvar 2 nú fyrr í kvöld.

Öll fjármálahöft verða afnumin á þriðjudag en ákvörðunina tilkynnti forsetisráðherra á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag.

Fjármálahöft voru sett á í kjölfar efnahagskreppunnar 2008. Árið 2015 var gerð áætlun um losun hafta sem skyldi fara fram í áföngum. Aðgerðirnar sem tilkynntar voru í dag eru lokahnykkurinn í þeirri áætlun.

Frá blaðamannafundinum í dag.
Gengisstyrking hefur áhrif

Bjarni tekur ekki fyrir það að tímasetning aðgerðanna sé tengd því að fyrirtæki í ferðamannaiðnaði og sjávarútvegi hafi haft uppi háværar kröfur um að stjórnvöld bregðist við gengisstyrkingu krónunnar.

„Það má segja að þetta tengist með vissum hætti. Það var ljóst að við þyrftum að safna styrk til þess að geta stigið þetta skref og þessi styrkur hefur farið vaxandi með styrkingu krónunnar og eflingu gjaldeyrisforðans. Við höfum verið að fá töluvert innstreymi fjármagns til landsins þannig að þetta tengist bæði með beinum og óbeinum hætti,“ segir Bjarni.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra tekur undir með Bjarna.

„Það eru kjöraðstæður til þess að afnema höftin núna og það var alveg ljóst að þau skyldu ekki vera hér til eilífðarnóns,“ segir hann.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×