Innlent

„Keflavíkurmódelið“ fyrirmynd í Austur-Evrópu

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Victoria Nuland aðstoðar utanríkisráðherra Bandaríkjanna
Victoria Nuland aðstoðar utanríkisráðherra Bandaríkjanna
Victoria Nuland, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að reynslan af rekstri varnarsvæðisins í Keflavík eftir að herafli Bandaríkjanna hvarf á brott úr Keflavíkurstöðinni fyrir átta árum geti verið gott fordæmi fyrir aðildarríki NATO í Austur-Evrópu.

„Þetta er ekki hefðbundið fyrirkomulag með fullmannaðri herstöð, heldur rekur Ísland aðstöðu á Keflavíkurflugvelli og Bandaríkjamenn nýta hana tímabundið fyrir alls konar aðgerðir. Við þurfum að vinna líka með þessum hætti í Austur-Evrópu,“ segir Nuland í viðtali við Fréttablaðið í dag. Hún tekur dæmi af herstöðvum í Póllandi og Eistlandi, þar sem Bandaríkin hafa nýlega staðsett flugsveitir vegna átakanna í Úkraínu. Þær séu „reknar mjög í anda Keflavíkur-módelsins“.

Nuland segir að Bandaríkin séu gegnheil í að vilja tryggja öryggi Íslands. „Það hefur ekkert breytzt og varnarsamningurinn frá 1951 stendur óhaggaður. Það sem hefur breytzt er hvernig við vinnum saman í öryggismálum. Ísland rekur varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli, en tekur mikinn og tíðan þátt í samstarfi við Bandaríkin; heræfingum, bæði tvíhliða og í samstarfi við önnur NATO-ríki, á landi, sjó og í lofti, við æfum hvernig hægt sé að nýta varnarsvæðið aftur með skömmum fyrirvara þótt þar sé enginn herafli staðsettur varanlega. Svona á öryggissamstarf að ganga fyrir sig á 21. öldinni og svona erum við að byrja að vinna með öðrum NATO-ríkjum. Ég held því þess vegna fram að þetta samstarf Bandaríkjanna og Íslands sé brautryðjendastarf.“

Lengra viðtal við Nuland er í Fréttablaðinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×