Erlent

„Íslandsvinur“ nálgaðist barnastjörnur á Harry Potter sýningu dulbúinn sem lögga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
"Eftir á óskaði ég þess að ég hefði ekki gert þetta. Ég vil hætta þessu. Ég hef fengið nóg af lögreglustöðvum og fangelsum, ég ræð ekki við það lengur,“ sagði Reese Scobie í viðtali í febrúar. Hann var ekki lengi að brjóta af sér á nýjan leik.
"Eftir á óskaði ég þess að ég hefði ekki gert þetta. Ég vil hætta þessu. Ég hef fengið nóg af lögreglustöðvum og fangelsum, ég ræð ekki við það lengur,“ sagði Reese Scobie í viðtali í febrúar. Hann var ekki lengi að brjóta af sér á nýjan leik. Vísir/Getty
Skotinn Reese Scobie, sem hlaut árs fangelsisdóm í febrúar hér á landi fyrir ítrekuð fjársvikabrot og vörslu á barnaklámivar handtekinn enn á ný á dögunum. Scobie, sem hefur verið nefndur „Catch me if you can“ - glæpamaðurinn, dulbjó sig sem lögreglumann og komst baksviðs í Palace Theatre í Soho í London. Þar ræddi hann við tvo barnunga leikara, fékk nöfn þeirra, netföng og símanúmer.

Leikritið sem um ræðir er Harry Potter and the Cursed Child sem nýtur mikilla vinsælda og er uppselt á svo til allar sýningar. Scobie var klæddur í lögreglubúning og var auk þess með handjárn til að auka trúverðugleika búningsins. Hann sagðist þurfa að ná tali af fyrrnefndum börnum sem leika hlutverk í verkinu.

Saksóknari í málinu, Darren Watts, sagði það áhyggjuefni að Scobie hefði dulbúið sig til að nálgast stjörnur sem í þessu tilfelli væru börn. Brotaviljinn væri einlægur en Scobie væri dæmdur kynferðisbrotamaður gagnvart börnum. Þegar hann komst að börnunum gekk hann á þau og óskaði eftir persónulegum upplýsingum s.s. heimilisfangi, símanúmeri og netfangi.

Scobie hafði bókað tveggja vikna gistingu á hóteli í nágrenninu var handtekinn skömmu síðar eftir að fólki þótti hegðun hans grunsamleg. Hann hefur verið dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir brot sín en hann braut einnig reglur er sneru að tilkynningaskyldu hans sem dæmdur kynferðisbrotamaður.

Hér sést Scobie í öryggismyndavél verslunarinnar iSímans þar sem hann reyndi að sækja vörur fyrir rúma hálfa milljón.
Sagðist vilja hætta afbrotum

Scobie sagðist í viðtali við skoska blaðið The Evening Telegraph í febrúar ákveðinn í því að snúa blaðinu við. Scobie vakti á sínum tíma mikla athygli fyrir efnahagsbrot í heimalandinu, þangað sem hann var kominn til að afplána eftirstöðvar dómsins sem hann hlaut á Íslandi.

Scobie var handtekinn við komu til landsins þann 16. júní í fyrra með umtalsvert magn barnakláms á tölvubúnaði sem hann hafði meðferðis.  Farmiði hans til Íslands var greiddur með illa fengnu greiðslukortanúmeri en fjársvik af ferðaþjónustuaðilum eru þau brot sem Scobie er helst þekktur fyrir.

Hann var látinn laus úr gæsluvarðhaldi þann 27. júlí en áfram látinn sæta farbanni á meðan rannsókn þessara brota stóð yfir. Scobie varð uppvís að fjölda fjársvika með fölsuðum greiðslukortum á meðan hann gekk laus á Íslandi. Meðal annars var hann handtekinn í verslun iSímans í Skipholti í Reykjavík þann 6. ágúst þar sem hann reyndi að sækja vörur fyrir alls 516 þúsund krónur.



„Ég leiddi aldrei hugann að afleiðingunum, að fólk myndi tapa peningum,“ segir Scobie í samtali við The Evening Telegraph um eðli brota sinna.

„Eftir á óskaði ég þess að ég hefði ekki gert þetta. Ég vil hætta þessu. Ég hef fengið nóg af lögreglustöðvum og fangelsum, ég ræð ekki við það lengur.“

Afbrot Scobie árið 2013 vöktu athygli í breskum fjölmiðlum.
„Ekkert eins og í Catch Me If You Can“


Scobie er fæddur árið 1993 og vakti sem fyrr segir athygli fjölmiðla fyrir efnahagsbrot í Bretlandi. Hann fékk árið 2013 sextán mánaða dóm í Bretlandi fyrir að svíkja út sjötíu þúsund pund, eða rúmlega fjórtán milljónir íslenskra króna, af ferðaþjónustuaðilum.  



Í fréttum breskra miðla um málið segir að í dómi sé Scobie lýst sem tæknisérfræðingi sem nýti sér tölvukunnáttu sína til að svíkja út fé. 

Þá er talað um Scobie sem „Catch me if you can-glæpamanninn“ í breskum miðlum og honum líkt við þekkta svikahrappinn Frank Abagnale Jr., sem Leonardo DiCaprio lék í bíómyndinni Catch Me If You Can.

„Ég hef mjög gaman af flugvélum og því að ferðast, en þetta var ekkert eins og í Catch Me If You Can,“ segir Scobie. 

Frá handtöku Scobie í verslun iSímans í ágúst í fyrra.Mynd/Tómas Kristjánsson
Segist ekki vera barnaníðingur

„Þetta snerist bara um spennuna við það að vera í fluginu. Ég var nokkurn veginn bara í því að fara beint úr einu flugi í annað. Að bóka flugferðirnar var bara eitthvað sem ég gerði og mundi svo ekki eftir.“



Scobie, sem er ofvirkur og með Asberger-heilkenni, játaði öll brot sín skýlaust fyrir dómi á Íslandi. Hann segist í viðtalinu hafa komist yfir þær þúsundir ljósmynda og hundruð myndskeiða sem sýna börn á klámfenginn hátt þegar hann var að forvitnast um „myrku hliðar internetsins.“



„Ég er alls ekki barnaníðingur,“ segir Scobie. 

„Ég ákvað að kíkja hvað væri á spjallþræði sem ég fann á netinu og þegar ég áttaði mig á því hvað var á myndunum reyndi ég að eyða þeim. Ég tilkynnti efnið til eftirlitsstofnana. Ég hélt að ég hefði eytt þeim en lögreglan fann leifar af þeim.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×