Skoðun

„Í handahöldunum á ómögulegheitunum“

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
„Það er ýmislegt og alls konar í handahöldunum á ómögulegheitunum,“ sagði faðir minn að hefði verið orðtak Kjarvals og óneitanlega tautar maður þetta stundum með sjálfum sér – ekki síst þegar maður veltir fyrir sér sambandi Íslendinga og Evrópusambandsins. Eiginlega lítið annað hægt að segja um það mál. Allt einn allsherjar ómöguleiki. Hvernig endaði málið í öllum þessum ómögulegheitum?

Þjóðin sendir að vísu afar misvísandi skilaboð: Áttatíu prósent landsmanna vilja að stjórnarflokkarnir efni kosningaloforð sín um þjóðaratkvæðagreiðslu um næstu skref – og er nú eiginlega lágmarkskrafa sem gera verður til stjórnmálaflokka. En sjötíu prósent landsmanna eru andvíg inngöngu í ESB. Samt sýna skoðanakannanir að meirihluti landsmanna vill að aðildarviðræður verði kláraðar og samningur svo lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Við þetta situr. Þetta segir okkur það að fólk sé tortryggið í garð ESB, sem er alveg eðlilegt, en vilji samt bíða og sjá hvað aðild kann að þýða. Það vill kíkja í pakkann. Það er nefnilega alveg hægt að kíkja í pakkann.

Að flækjast í eigin klækjum

Og það er eins og flokkakerfið okkar sé ófært um að þoka málinu áfram – eða afturábak. Allt er fast.

Smækkunarstjóri Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, úthúðar embættismönnum að vanda og hvetur til tafarlausra og afdráttarlausra viðræðuslita, en það er eins og ríkisstjórnin sé að reyna að koma hinni endanlegu ákvörðun yfir á Evrópusambandið. Það er með öðrum orðum ekki nóg með að núverandi ráðamenn vilji sækja öll þessi lög og reglugerðir til ESB heldur reyna þeir líka að koma yfir á ESB sinni eigin höfnun á aðild að því. Það gengur brösuglega. Ráðherrar reyna að sýna klókindi, en flækjast einhvern veginn í eigin klækjum.

Samt er hér við alla gömlu flokkana að sakast. Það er alltaf erfitt að vera vitur eftir á; og þegar litið er um öxl var það bráðræði að leggja út í þennan leiðangur eins og gert var; hann var ekki nógu vel undirbúinn pólitískt hér á landi og forystufólk Samfylkingar náði ekki að hrífa fólk og fylkja því um þessa hugmynd: að ganga í Evrópusambandið en híma ekki bara í gættinni. Samfylkingin vanmat hversu öflug andstaðan var meðal hagsmunaaðila og hversu langt menn voru reiðubúnir að ganga til að koma í veg fyrir að til yrði samningur sem þjóðin myndi hugsanlega geta samþykkt. Samfylkingarfólki mistókst að sannfæra þjóðina um að þetta væri rétt skref; það var eins og menn biðu bara í rólegheitum eftir samningi og hirtu ekki um að taka þátt í umræðunni, sem fyrir vikið var undirlögð af tröllasögum um ESB. Það reyndust misráðin klókindi.

Ein villan enn hjá Samfylkingunni var að gera sér ekki grein fyrir því hversu afdrifaríkur tvískinnungurinn hjá VG var. Þar á bæ voru – og eru – vissulega stuðningsmenn aðildar að ESB, en enginn treysti sér samt til að tala fyrir málinu. Gagnvart utanaðkomandi virkaði þetta svolítið eins og fólk væri að þykjast vera andvígt aðild. Í baklandi flokksins var andstaða mikil en meðal kjósenda hafa stuðningsmenn aðildar hins vegar verið iðulega í meirihluta. Forystumenn VG vildu ógjarnan bíta af sér það fylgi, en um leið varð að fylgja stefnu gamla kjarnans sem lítur á Evrópusambandið sem bandalag heimsvaldasinna og hafi það markmið að sölsa undir sig auðlindir fátækra þjóða. Þetta er arfur tortryggni í garð vestrænna lýðræðisríkja sem aldrei hefur alveg horfið úr þessum flokki.

Útkoman af stefnu VG var þessi: Þau gáfu grænt ljós á aðildarviðræður en fólu um leið Jóni Bjarnasyni, staðfastasta andstæðingi ESB sem til er á byggðu bóli, að stýra viðræðum um þau mál þar sem helst reyndi á gagnkvæman samningsvilja Íslendinga og fulltrúa sambandsins. Jón Bjarnason strengdi þess heit hátt og snjallt að sjá til þess með öllum ráðum að aldrei yrði samið. Þessi ríki ósamningsvilji skilaði því að allt stóð fast í þar til hann var leystur frá störfum, en í kjölfarið var ákveðið að hægja á viðræðum, að ósk VG, fram að þingkosningum, þegar ný ríkisstjórn var mynduð af flokkum sem lofuðu að bera næstu skref undir þjóðina – en reyna nú að svíkja það.

Pólitísk leikjafræði

Og við þetta situr. Á öllum stigum málsins er pólitísk leikjafræði allsráðandi; misráðin klókindi ráða för fremur en áhugi á því að bæta lífskjör á Íslandi. Málið er fast í handahöldunum á ómögulegheitunum.

Við þurfum nýtt fólk í íslensk stjórnmál með nýja hugsun, ný viðhorf, nýjar aðferðir við að greiða úr málum. Við þurfum pragmatískt fólk sem hefur áhuga og ánægju af því að leysa vandamál fremur en skapa þau. Við þurfum fólk sem hefur ánægju af því að starfa saman og er ekki bundið á klafa úreltrar hugmyndafræði úr öðrum víddum, hvort sem sú hugmyndafræði er kennd við kommúnisma eða kapítalisma eða þjóðernishyggju.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×