Innlent

Farþegar sátu fastir um borð í flugvél á Keflavíkurflugvelli vegna veðurs

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Verklagsreglur Norwegian komu í veg fyrir að vélin gæti tengst rana en vindhraði var of mikill.
Verklagsreglur Norwegian komu í veg fyrir að vélin gæti tengst rana en vindhraði var of mikill. Vísir/Getty
Farþegar norska flugfélagsins Norwegian Air sátu fastir um borð í flugvél félagsins á Keflavíkurflugvelli í kvöld en vélin gat ekki tengst flugstöðinni vegna veðurs. Flugvélin kom frá Osló og lenti á Keflavíkurflugvelli rétt eftir klukkan 19.00.

Þetta staðfesti upplýsingafulltrúi ISAVIA, Guðni Sigurðsson, í samtali við Vísi. Hann segir að verklagsreglur Norwegian Air hafi gert það að verkum að flugvélin hafi verið sú eina af þeim sem lentu í kvöld sem ekki gat lagst að flugvellinum.

„Það eru verklagsreglur hjá Norwegian Air um að tengjast ekki rana þegar vindur er yfir 38 hnúta (19,5 m/s). Verklagsreglur flugstöðvarinnar segja hinsvegar að hámarkið sé 50 hnútar (25 m/s). Þessvegna hafa allar aðrar flugvélar tengst án vandkvæða,“ segir Guðni.

Veður hefur verið víða mjög slæmt á landinu í dag og í kvöld. Er Keflavíkurflugvöllur engin undantekning en þar hefur verið sterkur vindur og snjókoma. Guðni segir þó að veðrið hafi lægt á síðustu mínútum og að hann hafi fengið þær upplýsingar frá flugturninum í Keflavík að flugvél Norwegian Air myndi tengjast von bráðar svo hleypa mæti farþegum og áhöfn vélarinnar frá borði.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×