Innlent

„Eitt stærsta úrlausnarefni samtímans“

Samúel Karl Ólason skrifar
„Þetta er auðvitað eitt stærsta úrlausnarefni samtímans. Ekki bara stórt mál hér, heldur gríðarlega stórt mál um alla Evrópu og víðar. Enda er þetta að umfangi meira en menn hafa séð frá Seinni heimstyrjöld,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Það auðvitað kallar á, í fyrsta lagi, að menn meti stöðuna á hverjum stað en líka að við stillum saman strengi á milli landa. Evrópulöndin ætla að gera aðra tilraun til þess eftir tvær vikur, en hér heima ætlum við að taka þetta föstum tökum. Ég geri ráð fyrir að á morgun stofni við sérstaka ráðherranefnd til að fylgjast með gangi þessara mála og meta með hvaða hætti Íslendingar geta lagt mest af mörkum til að bregðast við þessu ástandi.“

Sigmundur sagði það hve margir flóttamenn kæmu hingað til lands, vera einungis einn hluta af því sem þyrfti að ræða.

„Því að fjöldinn er slíku að sama hvort það eru einhverjir tugir eða hundruð eða hvað sem menn eru að tala um. Það eru ýmsar tölur í gangi hvað það varðar. Þá leysir það ekki þann brýna vanda sem er til staðar í Suður-Evrópu ekki hvað síst og í Asíu. Þar sem að þessi gríðarlegi fjöldi sem nú er til umfjöllunar í fjölmiðlum hér á Íslandi og annarsstaðar í Evrópu. Er líklega bara tvö prósent af þeim Sýrlendingum sem hafa yfirgefið heimili sín.

Neyðarástand sem bregðast þarf við

„Það er miklu meiri fjöldi sem er staddur í flóttamannabúðum eða hefur flust innan landsins eða til næstu landa, sem að býr við gríðarlega erfiðar aðstæður. Jafnvel í Grikklandi er talað um að ferðamenn séu að gefa flóttamönnum mat því þau séu hungruð. Þetta er neyðarástand sem þarf að bregðast við strax.“

Sigmundur segir að ráðherranefndin muni meta hvernig hægt sé að bregðast við fljótt og svo þurfi að vinna að öðrum hlutum í framhaldi af því. Meðal annars með öðrum Evrópulöndum. Spurður hvort að við gætum brugðist við með öðrum hætti en að taka á móti flóttamönnum sagði Sigmundur svo vera.

„Til að mynda skortir verulega á að ríki hafi veitt þá aðstoð í öðru formi, meðal annars í formi fjármagns sem að fyrirheit voru gefin um og sem að þörf er fyrir. Þörfin er reyndar orðin miklu meiri en fyrirheitin sem voru gefin, en ekki einu sinni þau hafa verið uppfyllt nema að tiltölulega litlu leyti.“

„Bara það að koma í veg fyrir að fólk hreinlega deyi úr sjúkdómum og jafnvel hungri í Suður-Evrópu eða í Asíu er gríðarlega brýnt verkefni.“

Hlusta má á Sigmund ræða málefni flóttamanna hér að ofan. Umræðan byrjar eftir um 4:30 mínútur.


Tengdar fréttir

Gætum tekið við hundruðum

Fjölmargir Íslendingar kalla eftir því að Ísland taki á móti fleiri flóttamönnum en áform ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir. Deildarstjóri Rauða krossins í Reykjavík segir það vera stjórnvalda að ákveða töluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×