Enski boltinn

Zlatan farinn að snúa stuðningsmönnum City

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic. vísir/getty
Það er heldur betur stórleikur í enska deildabikarnum í kvöld er Manchester-liðin mætast á Old Trafford.

Svíinn Zlatan Ibrahimovic hjá Man. Utd er spenntur fyrir kvöldinu en hann þekkir stórleikina á löngum ferli. Hann hefur leikið undir stjórn Pep Guardiola, stjóra Man. City, hjá Barcelona er liðið mætti Real Madrid. Hann hefur einnig tekið þátt í Mílanó-slagnum.

Þó svo Man. Utd skjóti púðurskotum þessa dagana þá er Svíinn brattur sem fyrr.

„Þetta er nágrannaslagur tveggja liða í sömu borginni. Það vilja öll lið stýra sinni borg og við erum engin undantekning,“ sagði Zlatan.

„Ég hef mikla reynslu úr svona leikjum um alla Evrópu. Það hitnar í kolunum í svona leikjum. Ég hef oft staðið uppi sem sigurvegari í þessum leikjum og vonandi gerist það aftur núna.“

Þó svo Man. Utd hafi verið flengt gegn Chelsea um síðustu helgi segir Zlatan að sjálfstraustið sé gott í liðinu.

„Við getum ekki breytt úrslitum leikja en við getum gert betur í næsta leik. Við fáum tækifæri til þess gegn City núna. Við trúum á okkur og því sem við erum að gera sem lið. Það er aðalatriðið.“

Zlatan var að lokum spurður að því hvort hann hefði rekist á marga stuðningsmenn City í borginni.

„Ég hef hitt marga stuðningsmenn City en þeir urðu stuðningsmenn United eftir að hafa hitt mig.“

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19.00 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×