Fótbolti

Zlatan áfram á skotskónum þegar PSG jafnaði stigametið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var gaman hjá Zlatan Ibrahimovic í kvöld.
Það var gaman hjá Zlatan Ibrahimovic í kvöld. Vísir/Getty
Paris Saint-Germain eru fyrir löngu búið að tryggja sér franska meistaratitilinn en leikmenn liðsins eru ekki hættir að safna stigum.

Paris Saint-Germain vann 4-0 sigur á Rennes í kvöld en með þessum sigri jafnaði liðið stigametið í frönsku deildinni. PSG er nú komið með 89 stig eða 30 meira en næsta lið.

Öll mörkin komu í seinni hálfleiknum og tvö af þeim skoraði sænski framherjinn Zlatan Ibrahimovic.

Zlatan Ibrahimovic hefur þar með skora 34 deildarmörk í aðeins 28 leikjum á tímabilinu en hann hefur sextán marka forskot á næsta mann. Zlatan Ibrahimovic hefur skorað 11 mörk í síðustu fimm deildarleikjum sínum.

Zlatan er ekki aðeins búinn að skora þessi 34 mörk því hann hefur einnig gefið 13 stoðsendingar á félaga sína í liðinu.

Brasilíski varnarmaðurinn Maxwell skoraði fyrsta markið í leiknum í kvöld en fjórða markið skoraði síðan Edinson Cavani .

Paris Saint-Germain á enn eftir þrjá leiki á tímabilinu og fá því mörg tækifæri til að bæta stigametið.

Paris Saint-Germain er búið að vinna deildina og deildabikarinn og er einnig komið í bikarúrslitaleikinn sem fer fram 21. maí.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×