Enski boltinn

Zlatan: Tók mig aðeins þrjá mánuði að taka yfir England

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan Ibrahimovic er næst markahæstur í ensku úrvalsdeildinni.
Zlatan Ibrahimovic er næst markahæstur í ensku úrvalsdeildinni. vísir/getty
Zlatan Ibrahimovic, framherji Manchester United, segist vera búinn að taka yfir, eða hertaka, ensku úrvalsdeildina og ná því markmiði sem hann setti sér; að sanna gæði sín í erfiðustu deild heims. Þetta tók hann aðeins þrjá mánuði.

Zlatan, sem er búinn að skora sjö mörk í síðustu átta deildarleikjum og þrettán mörk í heildina í úrvalsdeildinni, missti af fyrri leik United gegn Hull í undanúrslitum deildabikarsins sem liðið vann, 2-0. Hann var veikur og sat á bekknum allan tímann.

Búist er við að Svíinn snúi aftur á sunnudaginn þegar erkifjendurnir Manchester United og Liverpool mætast öðru sinni á leiktíðinni en Zlatan getur náð Diego Costa á toppi markalistans með marki á Old Trafford. Hann er þó ekki í neinu kapphlaupi um markakóngstitilinn.

„Ég er ekki að elta neinn einstakling. Ég er að elta aðal bikarinn sem maður fær fyrir að vinna ensku úrvalsdeildina. Það er mitt markmið. Viðurkenningar fyrir einstaklingsafrek koma sjálfkrafa þegar stóra markmiðið næst. Það er eins og bónus fyrir leikmanninn,“ segir Zlatan í viðtali við heimasíðu Manchester United.

„Ef heildinni gengur vel gengur einstaklingunum vel. Ég reyni að hjálpa liðinu með því að skora. Ég er bestur í því. Ég reyni að spila vel og leggja upp færi fyrir liðsfélaga mína. Á meðan ég geri það er veit ég að ég er að hjálpa liðinu.“

„Það er eins með hina í liðinu. Þeir hjálpa mér að hjálpa liðinu. Ég er ekki með nein einstaklingsmarkmið á Englandi því ég náði þeim á þremur mánuðum. Ég tók yfir [e.conquered] England og það tók mig bara þrjá mánuði,“ segir Zlatan Ibrahimovic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×