Enski boltinn

Zlatan: Þetta verður auðvelt þegar við smellum saman

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan Ibrahimovic átti ekki góðan leik í gær.
Zlatan Ibrahimovic átti ekki góðan leik í gær. vísir/getty
Zlatan Ibrahimovic, framherji Manchester United, var ánægður með úrslitin á Anfield í gærkvöldi þar sem erkifjendurnir Liverpool og Manchester United skildu jöfn, markalaus.

Zlatan fékk eitt dauðafæri í seinni hálfleik og hefði getað tryggt United öll stigin þrjú en hann skallaði frábæra fyrirgjöf Pauls Pogba langt framhjá markinu. Zlatan hefur nú spilað fimm leiki gegn Liverpool á ferlinum án þess að skora mark eða vinna leik.

Manchester United er áfram þremur stigum á eftir Liverpool í sjöunda sæti en með sigri hefði United jafnað Liverpool og Chelsea að stigum. Manchester City og Arsenal eru fimm stigum á undan United saman á toppnum með 19 stig.

„Mér fannst þetta góð úrslit, sérstaklega miðað við færin sem þeir fengu í seinni hálfleik. Við lögðum mikið á okkur og það er mikil vinna eftir en þetta er allt í lagi,“ sagði Zlatan við fréttamenn eftir leikinn í gær.

„Í fyrri hálfleik gerðum við það sem við þurftum að gera en í þeim síðari vorum við ekki jafngóðir. Þá opnaðist leikurinn svolítið og þeir fengu færin. Þetta er allt hluti af leiknum en við stóðum okkur vel.“

Sænski framherjinn hrósaði David De Gea í hástert fyrir markvörslur Spánverjans í gærkvöldi en hann bjargaði stigi fyrir gestina með tveimur heimsklassa vörslum.

Fyrst varði De Gea skot af stuttu færi frá Emre Can úr teignum og svo sýndi hann svakaleg fimleikatilþrif þegar hann varði frábært skot Phillipe Coutinho upp í samskeytunum.

Zlatan sagði að tímabilið á Englandi sé langt og að liðin sem eru að berjast um titilinn núna eigi eftir að tapa stigum.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að vinna leiki og halda okkur í titilfæri. Ef maður vinnur tvo leiki í röð er maður kominn í toppbaráttunni. Þegar við smellum saman verður þetta auðvelt,“ sagði Zlatan Ibrahimovic.


Tengdar fréttir

Mourinho: Aldrei heyrt svona lítil læti á Anfield

"Þetta eru ekki úrslitin sem við óskuðum okkur en þetta eru engu að síður jákvæð úrslit. Þessi úrslit komu í veg fyrir að einn af okkar andstæðingum fengi þrjú stig á heimavelli,“ sagði Jose Mourinho, stjóri Man. Utd, eftir markalausa jafnteflið gegn Liverpool í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×