Sport

Yfir hundrað Íslendingar fara utan að sjá Gunnar

Ferð á bardagann Jón Viðar, formaður Mjölnis, lét setja upp ferð á fyrsta bardaga Gunnars Nelson í UFC. Bubbi Morthens og Dóri DNA lýsa honum í beinni útsendingu á Stöð 2.
Ferð á bardagann Jón Viðar, formaður Mjölnis, lét setja upp ferð á fyrsta bardaga Gunnars Nelson í UFC. Bubbi Morthens og Dóri DNA lýsa honum í beinni útsendingu á Stöð 2.
„Við ætlum að fara út, styðja Gunna og hafa gaman," segir Jón Viðar Arnþórsson, formaður Mjölnis, um áætlaða ferð félagsins á fyrsta UFC-bardaga Gunnars Nelson. UFC eru stærstu samtök heims í blönduðum bardagalistum og gerði Gunnar samning við þá nýlega, fyrstur Íslendinga.

Bardaginn fer fram í Nottingham á Englandi þann 29. september og mun Gunnar þar etja kappi við Þjóðverjann Pascal „Panzer" Krauss. Jón Viðar fór í samstarf við Express-ferðir og setti saman ferð á bardagann fyrir áhugasama Mjölnismeðlimi. Sú ferð hefur aldeilis undið upp á sig og er þegar uppselt í hana og annarri hefur verið bætt við. „Það voru á milli fimmtíu og sextíu miðar í Mjölnisferðinni og þeir ruku út á nokkrum dögum. Það er frábært hversu margir vilja fara út til að styðja við bakið á Gunna," segir Jón Viðar. Klara Íris Vigfúsdóttir, forstöðumaður Express-ferða, segir aðsóknina hafa verið meiri en þau þorðu að vona. „Við vorum að setja upp aðra ferð í samstarfi við x-ið og það er strax byrjað að seljast í hana. Við settum hana bara á netið rétt áðan svo það er greinilegt að fólk er að fylgjast með. Allt í allt erum við með rúmlega 100 miða í boði," sagði hún þegar Fréttablaðið náði af henni tali í gær.

„Við erum að reyna að setja saman þriðju ferðina en okkur vantar bara flugsæti," bætti hún við hlæjandi. Hún segir Express-ferðir að öllum líkindum koma til með að halda áfram að bjóða upp á ferðir á bardaga Gunnars erlendis.

Bubbi Morthens segir bardagann vera mikinn prófstein fyrir Gunnar en hann fer utan með Dóra DNA til að lýsa bardaganum sem sýndur verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. „Dóri er auðvitað algjört nörd og fróðastur manna á Íslandi þegar kemur að blönduðum bardagaíþróttum," segir Bubbi og bætir við: „Þetta verður rosalegt. Ég vil meina að Dóri DNA og Bubbi Morthens að lýsa Gunnari Nelson sé alveg deadly combination," segir hann að lokum. tinnaros@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×