Körfubolti

Westbrook jafnaði við Jordan með sjöundu þrennunni í röð | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Russell Westbrook náði þeim einstaka áfanga að vera með þrefalda tvennu sjöunda leikinn í röð þegar Oklahoma City Thunder tapaði 99-102 fyrir Houston Rockets í nótt.

Westbrook skoraði 27 stig, tók 10 fráköst og gaf 10 stoðsendingar í liði Oklahoma sem tapaði í fyrsta sinn í sjö leikjum í nótt.

Það þarf að fara aftur til ársins 1989 til að finna leikmann sem náði þrennu í jafn mörgum leikjum í röð. Það var sjálfur Michael Jordan sem náði sjö þrennum í röð fyrir Chicago Bulls í mars og apríl 1989. Raunar vantaði Jordan aðeins þrjú fráköst í leik gegn Detroit Pistons 7. apríl 1989 til að ná þrennu í 11 leikjum í röð.

Westbrook vantar þrjár þrennur til að bæta met Wilts Chamberlain sem var með þrennu í níu leikjum í röð fyrir Philadelphia 76ers 1968.

Westbrook er alls búinn að ná 12 þrennum á tímabilinu en Oklahoma hefur unnið níu af þeim leikjum þar sem hann hefur verið með þrennu.

Þessi magnaði leikstjórnandi er með þrennu að meðaltali í leik í vetur; 30,9 stig, 10,8 fráköst og 11,3 stoðsendingar. Eini maðurinn sem hefur verið með þrennu að meðaltali í leik á heilu tímabili er Oscar Robertsson með Cincinnati Royals tímabilið 1961-62.

NBA

Tengdar fréttir

Fjórða þrefalda tvennan í röð

Russell Westbrook heldur áfram að eiga einstakt tímabil í NBA-deildinni en í nótt var hann með þrefalda tvennu fjórða leikinn í röð og í níunda sinn í vetur.

Reiðasta þruman í þrennu-herferð

Russell Westbrook er fyrsti NBA-leikmaðurinn í 55 ár sem mætir inn í jólamánuðinn með þrennu að meðaltali í leik. Leikmaðurinn hefur verið á sannkallaðri einkaherferð eftir að Kevin Durant yfirgaf Oklahoma City Thunder.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×