Enski boltinn

Wenger: Mjög slæmar fréttir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger og  Santi Cazorla.
Arsene Wenger og Santi Cazorla. Vísir/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, var spurður út í meiðsli miðjumannsins Santi Cazorla á blaðamannafundi í dag.

Santi Cazorla þarf að fara í aðgerð á ökkla en hann hefur ekkert getað spila vegna meiðslanna síðan í október.

„Fyrir mér þá eru þetta mjög slæmar fréttir,“ sagði Arsene Wenger. „Ég reyni alltaf að forðast aðgerðir. Þær búa til kvíða, endurhæfingu og það er miklu betra að forðast þær,“ sagði Wenger.

„Að þessu sinni höfum við komist að þeirri niðurstöðu að aðgerð sé eina leiðin út úr þessu. Núna segja þeir mér jafnframt að hann verði að minnsta kosti frá í tvo mánuði en tveir mánuðir breytast oft fljótt í þrjá mánuði,“ sagði Wenger.

„Santi vill ólmur fá að spila fótbolta á ný. Hann hefur ekki áhuga á neinu öðru og leitar allra leiða til að ná sér,“ sagði Wenger. Hann segir þó forföll Cazorla ekki kalla á leikmannakaup þegar glugginn opnar í næsta mánuði.

„Við höfum marga miðjumenn. Við þurfum ekki að finna nýjan Cazorla í janúar. Meiðslastaðan hjá okkur hefur verið góð og við höfum ekki lent í mörgum meiðslum á þessu tímabili fyrir utan nokkrar vöðvatognanir,“ sagði Wenger.

Santi Cazorla er með 2 mörk og 3 stoðsendingar í ellefu leikjum í öllum keppnum á þessu tímabili.

Framlag hans sést líka í gengi liðsins. Arsenal vann sjö af átta síðustu leikjunum sem hann spilaði í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni þar af sex síðustu leikina í deildinni. Frá því að Santi Cazorla meiddist hefur Arsenal aðeins unnið 2 af 5 leikjum sínum í úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×