Körfubolti

Wade: Rondo besti leikstjórnandi sem ég hef spilað með

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wade og Rondo spila saman með Chicago Bulls á næsta tímabili.
Wade og Rondo spila saman með Chicago Bulls á næsta tímabili. vísir/getty
Þrátt fyrir að hafa ekki enn spilað keppnisleik saman segir Dwyane Wade að Rajon Rondo sé besti leikstjórnandi sem hann hefur spilað með.

Wade og Rondo gengu báðir til liðs við Chicago Bulls í sumar. Wade kom frá Miami Heat, þar sem hann hafði leikið allan sinn feril í NBA-deildinni, og Rondo frá Sacramento Kings.

Rondo var stoðsendingakóngur deildarinnar á síðasta tímabili, með 11,7 stoðsendingar að meðaltali í leik, og Wade er afar hrifinn af leikstjórnandanum snjalla.

Þrátt fyrir að margir frábærir leikmenn hafi spilað með Miami spilaði Wade aldrei með afgerandi leikstjórnanda hjá félaginu. Gary Payton var kominn yfir sitt besta þegar hann kom á sínum tíma og Mario Chalmers var í hálfgerðu aukahlutverki þegar Miami varð meistari 2012 og 2013.

Rondo, sem er þrítugur, hefur þrisvar sinnum leitt deildina í stoðsendingum (2012, 2013 og 2016). Fyrstu átta ár sín í NBA lék hann með Boston Celtics áður en hann gekk til liðs við Dallas Mavericks 2015. Þaðan fór hann til Sacramento og loks Chicago í sumar.

Rondo er með 11,0 stig, 4,8 fráköst og 8,7 stoðsendingar að meðaltali í leik á ferlinum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×