Innlent

VR sleit einnig kjaraviðræðum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólafía minnir á að um 30 þúsund félagsmenn séu hjá VR og 5000 félagsmenn hjá LÍV.
Ólafía minnir á að um 30 þúsund félagsmenn séu hjá VR og 5000 félagsmenn hjá LÍV. Vísir/Anton Brink
Allt stefnir í verkfall um 35 þúsund félagsmanna VR og Landssambands íslenskra verslunarmanna í lok maí. Viðræðum VR og LÍV við Samtök atvinnulífsins í Karphúsinu var slitið um klukkan þrjú í dag.

Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, sagði við Vísi skömmu eftir fundinn að samtalið væri orðið árangurslaust. Óskað hefði verið eftir því að það yrði fært til bókar og fundi slitið.

„Í framhaldinu verð ég með stjórnarfund í kvöld og trúnaðarráðsfund þar sem ég mun fara yfir stöðuna með trúnaðarráði félagsins og taka síðan ákvarðanir um framhaldið,“ segir Ólafía.

Lítið rætt kröfur VR og LÍV

Forsvarsmenn VR og LÍV hafa fundað endurtekið með fulltrúm SA undanfarnar vikur.

„Þeir hafa hingað til alltaf viljað nálgast viðfangsefnið út frá heildarvinnumarkaði og lítið rætt okkar kröfur,“ segir Ólafía. Nú hafi viðræðum hins vegar verið slitið.

„Við höfum hins vegar verið að ráða ákveðna þætti inn í efnishluta samningsins hvað varðar starfsmenntamál. Okkur hefur miðað ágætlega í þeim efnum við Samtök atvinnulífsins en ekkert sem gerir það að verkum að hægt sé að fara að skrifa undir kröfugerðina okkar í heild sinni.“

35 þúsund í félögunum tveimur

Ólafía minnir á að um 30 þúsund félagsmenn séu hjá VR og 5000 félagsmenn hjá LÍV. Að loknum fundinum í kvöld komi í ljós næstu skref.

„Því miður bendir allt til þess að við séum að fara hér í verkfall í lok maí. En við skulum vona að menn nái einhverri niðurstöðu fyrir þann tíma.“

Fyrr í dag greindi Vísir frá því að Flóabandalagið hefði slitið viðræðum við SA. Þau verkalýðsfélög sem tilheyra Flóabandalaginu eru Efling, Hlíf í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur en þeim tilheyra um 21 þúsund manns.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×