Fótbolti

Vonast til að ekki verði æft á Laugardalsvelli fyrir landsleikinn

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Hitadúkurinn liggur þétt ofan á grasinu eftir að hætt var að dæla heitu lofti undir hann.
Hitadúkurinn liggur þétt ofan á grasinu eftir að hætt var að dæla heitu lofti undir hann. mynd/daníel
Hitadúkurinn sem lagður var yfir Laugardalsvöll fyrir landsleik Íslendinga og Króata á föstudag liggur þétt ofan á grasinu, eftir að hætt var að dæla heitu lofti undir hann í nótt. Það var gert vegna hvassviðris og er ekki útséð með það hvort blásið verður í dúkinn á ný í dag, en mikið snjóaði í borginni í nótt.

„Ég er nokkuð sáttur við ástandið á vellinum,“ segir Jóhann Kristinsson, vallarstjóri Laugardalsvallar, og vonast hann til þess að ekki verði æft á vellinum fyrir leikinn, en reglur FIFA kveða á um það að lið eigi rétt á að æfa á vellinum degi fyrir leik.

„Eftirlitsmaður leiksins kemur í dag og á morgun kemur í ljós hvort haldnar verði æfingar á vellinum fyrir leik. Það væri erfitt að þurfa að gera það, að þurfa að hleypa rigningu ofan í völlinn. Svo er líka spurning hvort vindurinn sé ekki líka of mikill til að æfa utandyra yfir höfuð.“

Þórir Hákonarson, formaður KSÍ, segist lítið stressaður vegna veðursins en mikið hefur verið rætt um veðurspá föstudagsins. „Spáin breytist frá degi til dags. Eins og spáin er núna stefnir í að það verði blíðskaparveður á föstudaginn. Ég er meira stressaður yfir leiknum sjálfum. En varðandi veðrið er það eina í stöðunni að taka því sem kemur á leikdegi, nema auðvitað að sjá til þess að völlurinn sé í lagi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×