Lífið

Virkar ekki án þess að skapa

Lilja Björk Hauksdóttir skrifar
Margrét Bjarnadóttir er fjölhæfur listamaður en hún kemur í fyrsta sinn fram á hvíta tjaldinu í Eiðnum þar sem hún leikur eiginkonu Baltasars Kormáks.
Margrét Bjarnadóttir er fjölhæfur listamaður en hún kemur í fyrsta sinn fram á hvíta tjaldinu í Eiðnum þar sem hún leikur eiginkonu Baltasars Kormáks. Vísir/Anton Brink
Þegar Margrét Bjarnadóttir birtist á stóra tjaldinu á sýningu Eiðsins fór kliður um salinn og fólk hvískraði sín á milli um hver hún væri þessi fallega kona sem fer með hlutverk Sólveigar, eiginkonu aðalpersónunnar Finns sem Baltasar Kormákur leikur. Margrét er fjölhæfur listamaður en þetta var frumraun hennar sem kvikmyndaleikkona. Hún segir það hafa komið sér mjög á óvart að hún hafi verið kölluð í prufur fyrir hlutverkið.

„Það eitt og sér kom mér á óvart, ég er ekki menntuð leikkona og er ekki einu sinni á skrá hjá neinum umboðsskrifstofum eða öðru slíku. Ég var aðallega forvitin að heyra díalóginn sem ég átti að fara með í prufunni og fór þess vegna en pældi svo ekki neitt meira í þessu. Mér var svo boðið í aðra prufu og fékk að lokum hlutverkið. Ég þurfti ekki að hugsa mig um þegar tækifærið bauðst, ég er of forvitin til þess. Þegar svona glæný reynsla býðst þá stekk ég á hana, ég vissi líka að þetta var allt mikið fagfólk og að ég yrði í öruggum höndum.“

Baltasar og Margrét í hlutverkum sínum sem Finnur og Sólveig í Eiðnum. MYND/LILJA JÓNSDÓTTIR FYRIR RVK STUDIOS
Leið ekki eins og amatör

Margrét segir það hafa verið fyrst og fremst mjög gaman að leika í Eiðnum og að það hafi gengið áfallalaust fyrir sig. „Þetta var áhugaverð og dýrmæt reynsla og merkilegt að fylgjast með þessu ferli frá handriti til lokaútkomu og sjá hve mikið gerist og breytist á þessu tímabili. Þó að ég hafi farið með texta á sviði áður, ég nota mikið texta í verkum mínum en það er þá alltaf texti sem ég hef skrifað sjálf, þá hef ég aldrei áður leikið aðra persónu sem einhver annar hefur skrifað og ég hef þurft að skilja og hlúa að. Mér leið samt alltaf vel í tökum, það var gott að vinna með öllum og það lét enginn mér líða eins og ég væri einhver amatör og fyrir vikið var ég aldrei stressuð. Allir voru bara þarna að gera sitt besta og ég líka,“ lýsir Margrét.

Margir hefðu fundið fyrir pressu yfir því að leika á móti þeim þekktu og reyndu leikurum sem eru í Eiðnum en Margrét segir það frekar hafa hjálpað henni. „Því betri sem mótleikarinn er því betri verður maður sjálfur. Ég lærði líka fljótt að það er ekki endilega gott að vera búin að negla það fyrir fram hvernig maður ætli að segja hina og þessa línuna því þá ertu kannski ekki í réttum takti við hina manneskjuna – mótleikarann. Það gengur einhvern veginn ekki að vera leikari og kontrólfrík. Það er skemmtilegra að hlusta á það sem hin manneskjan er að segja og bregðast við því, þá verður þetta svona dans á milli leikaranna.“

Úr útgáfuteitinu fyrir bók Margrétar „Líf mitt, til dæmis (dagbækurnar 1998 - 2002)“ hjá Tunglinu forlagi.
Stíflur losnuðu í listnáminu

Dans er nokkuð sem Margrét hefur mikla reynslu af því hún stundaði hann frá barnæsku og þar til hún varð nítján ára. Fjórum árum síðar fór hún svo í danshöfundanám í listaháskóla í Hollandi. Hún segist hafa verið listhneigð frá því hún var lítil en að það hafi komið kuldatímabil á menntaskólaárunum þegar hún glímdi við kvíða og fólksfælni og lokaði á listina. „Þá þorði ég ekki að skapa og það mynduðust stíflur í mér. Um leið og ég fór í listnám þá losnaði hins vegar um allar stíflur, fælni og óþægindi. Og kvíðinn bara hvarf eins og dögg fyrir sólu. Ég verð því alltaf að vera að skapa, annars virka ég bara ekki og líður illa.“

Dansstimpillinn loðir enn við Margréti þó hún hafi sjálf hætt að dansa fyrir sextán árum. Hún dansar þó af og til í sínum eigin verkum en vill ekki kalla sig dansara. Aðspurð telur hún að það sé líklega einfaldast að kalla sig listamann þar sem hún vinni í svo mörgum ólíkum listformum; sviðslistum, myndlist, skrifum og fleiru.

„Ég er með einhvers konar syndróm­ þar sem ég þarf alltaf að vera að gera eitthvað sem ég kann ekki. Að spila á hljóðfæri sem ég kann ekki á eða setja mig í einhverjar óþægilegar, viðkvæmar aðstæður – eins og til dæmis að gefa út dagbækurnar mínar. Það er vegna þess að ég var alltaf að glíma við svo mikla fullkomnunaráráttu þegar ég var yngri og það skapaði svo mikla fyrirstöðu og hömlur að ég gerði ekki neitt fyrir vikið. Í listnáminu fór ég markvisst að gera hluti sem ég kunni ekki bara til að komast yfir þessa hindrun í huganum og núna er ég bara í því að gera eitthvað sem ögrar mér, það myndar einhvern mótor fyrir mig,“ segir Margrét og brosir.

Eftir framkomuna í Barbican Theatre þar sem Margrét flutti afhjúpandi mónólóg um leið og hún spilaði á trommusett í tengslum við yfirlitssýningu Ragnars Kjartanssonar.
Gúglaði hvernig ætti að leika

Til merkis um fjölbreytni verkefna Margrétar má nefna að hún var að klára verkefni í Þjóðleikhúsinu þar sem hún sá um dans- og sviðshreyfingar fyrir Djöflaeyjuna. Núna er hún mest á vinnustofunni sinni að huga að dansverki sem hún er að fara að semja með Ragnari Kjartanssyni fyrir Íslenska dansflokkinn en einnig að skrifa en hún er í mastersnámi í ritlist. „Þegar mér var boðið í prufu fyrir Eiðinn þá var ég nýkomin til London þar sem ég ætlaði að vera í þrjá mánuði að skrifa lokaverkið í ritlist þannig að plönin breyttust, ég setti skrifin í salt og er að taka þau upp aftur.“

Nýjasta verk Margrétar þar sem hún kemur sjálf fram var í Barbican Theatre í London í júlí síðastliðnum, í tengslum við yfirlitssýningu Ragnars Kjartanssonar. Þar flutti hún fremur afhjúpandi mónólóg um leið og hún spilaði á trommusett, var eins konar „trommu­trúbador“, eftir að hafa farið í nokkra trommutíma og æft sig sjálf. Það er í fullu samræmi við það, að þegar hún fór heim eftir annan tökudag Eiðsins gúglaði hún „how to act for the screen?“.

„Ég vissi ekki almennilega hvernig ég ætti að undirbúa mig fyrir tökur myndarinnar, svona fyrir utan að lesa handritið og pæla í karakternum mínum. Ég spurði nokkra leikara, vini mína, ráða en í raun vissi ég ekki almennilega að hverju ég ætti að spyrja. Það var ekki fyrr en ég byrjaði í tökum að allar spurningarnar vöknuðu. Ég fór þá heim og gúglaði og fann eitthvert kennslumyndband frá 1980ogeitthvað með Michael Caine þar sem hann kennir ungum leikurum að leika fyrir framan kvikmyndatökuvél. Hann talaði meðal annars um að það væri varasamt að blikka augunum mikið, ég passaði mig sko heldur betur á því og er örugglega með geðveikislega störu alla myndina,“ segir hún í léttum dúr og skellihlær.

Margrét með Heru Hilmarsdóttur í frumsýningarpartíi Eiðsins. Í myndinni leikur Margrét stjúpmóður Heru.
Tengdi við Sólveigu

En fyrst við erum komnar aftur að kvikmyndaleik, fannst þér auðvelt að setja þig í spor persónunnar Sólveigar í Eiðnum?

„Já og nei. Þó að við séum að mörgu leyti mjög ólíkar – Sólveig myndi til dæmis aldrei gerast trommu­trúbador, þá er eitt og annað sem ég gat tengt við Sólveigu úr mínu persónulega lífi eins og það að hún er fyrrverandi dansari og ég líka. Aldursmunur í sambandi er eitthvað sem ég þekki líka. Margir sem hafa ekki verið í þannig sambandi halda kannski að það hljóti að ríkja ójafnvægi, að eldri aðilinn sé einhvern veginn ráðandi. Ég veit af eigin reynslu að það er ekki þannig svo ég var ekki með neinar fyrirfram gefnar hugmyndir um að Sólveig hlyti að vera undirgefin eiginmanni sínum eða eitthvað slíkt. Þó að hún sé auðvitað aukapersóna í myndinni og Finnur, maðurinn hennar, sé hjartaskurðlæknir sem gengur vel í starfi og er mjög afgerandi þá gaf ég mér aldrei að hún væri veikari aðilinn. Ég vissi hverjir hennar styrkleikar og veikleikar voru. Við Baltasar ræddum þeirra samband líka og styrkleikana og veikleikana í sambandinu. Ég vissi hvað það var sem hún kenndi honum og á hvaða sviðum hún var jafnvel þroskaðri en hann. Ég vona allavega að það skíni í gegn að hún sé ekki einhver písl, mér finnst það mikilvægt. Það er hægt að sýna styrk og karakter í þögn og með augnatilliti og nærveru, það þarf ekki alltaf að sýna hann með orðum og ég reyndi að vinna með það.“

Eiðurinn  var „góð þruma“

Margrét segist alveg geta hugsað sér að gera eitthvað tengt kvikmyndum aftur. „Þetta var forvitnilegt, skemmtilegt og lærdómsríkt á margan hátt. Ég gæti til dæmis alveg hugsað mér að skrifa fyrir bíó einhvern tíma og þá yrði þetta ómetanleg reynsla að hafa. Og þó að ég gerði aldrei neitt sem tengist kvikmyndum aftur þá væri ég samt bara mjög sátt. Þetta var ekki eitthvað sem ég stefndi að heldur kom bara eins og þruma úr heiðskíru lofti. Góð þruma.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×