Skoðun

Virðing eða umburðarlyndi?

Arnfríður Guðmundsdóttir og Hjalti Hugason skrifar

Íslenskt samfélag hefur tekið stakkaskiptum á síðustu árum. Margt sem áður þótti sjálfsagt er það ekki nú. Við getum ekki lengur gefið okkur að allir Íslendingar séu norrænir í útliti, eða mótaðir frá barnæsku af vestrænum hugsunarhætti og kristnum gildum. Fjölbreytileikinn er smátt og smátt að taka við af einsleitninni og spurningin er áleitin: Hvernig ætlar íslenskt samfélag að bregðast við?

Margt bendir því miður til þess að við sem samfélag höfum ekki staðið okkur sem skyldi við að aðlagast breyttum aðstæðum. Alltof oft heyrum við af því að þeim sem skera sig úr á einhvern hátt sé sýndur hroki og yfirlæti, ekki síst ef þau hafa ekki náð fullum tökum á íslenskri tungu. Þau sem hafa búið í öðru landi lengur eða skemur þekkja af eigin raun hve erfitt það getur verið að þurfa að tjá sig á öðru máli en móðurmálinu. Undir ákveðnum kringumstæðum getur það reynst flókið þegar umræðuefnið krefst orðaforða sem er viðkomandi framandi. Almennt er innfæddum Íslendingum sem ekki tala sérstaklega „góða íslensku" sýndur mun meiri skilningur en þeim sem tala með hreim. Við þurfum að taka á þessum vanda og þeim fordómum sem koma fram í viðhorfum til þeirra sem eru hluti af samfélagi okkar en eiga íslensku ekki að móðurmáli.

Til þess eru vítin að varast þau. Margir benda á reynslu nágrannaþjóða okkar af breyttri samfélagsgerð sem innflutningur fólks af öðru þjóðerni hefur haft í för með sér. Vissulega hefur ekki allsstaðar gengið vel að byggja gott og öruggt fjölmenningarsamfélag. Af þeirri reynslu verðum við að læra. En við getum líka lært af reynslu okkar sjálfra við að glíma við fordóma gagnvart þeim sem skera sig úr fjöldanum. Á síðustu árum hefur vissulega ýmislegt breyst til batnaðar á meðal okkar. Afstaða samfélagins til samkynhneigðra hefur til dæmis breyst mikið á skömmum tíma. Í framhaldinu hafa aðstæður samkynhneigðra einstaklinga batnað mikið. Við getum lært margt af þessari reynslu okkar. Það er vissulega hægt að taka á fordómum, ef vilji er til.

Fjölmenningarsamfélag er ekki valmöguleiki sem við stöndum frammi fyrir. Það er þvert á móti verkefni sem okkur ber að leysa. Fjölmenningarsamfélag verður að byggja á virðingu fyrir þeim sem skera sig úr. Umburðarlyndi nægir ekki. Það er ekki nóg að við umberum þau sem falla ekki undir staðalmynd hins íslenska borgara. Við verðum að virða þau sem jafningja og læra að meta það sem þau vilja og geta lagt til samfélags okkar. Virðing en ekki umburðarlyndi er lykillinn að góðu og öruggu samfélagi þar sem margbreytileiki nýtur sín og auðgar samfélagið.

Þetta þarf að vera leiðarljós við mótun nýrrar stjórnarskrár fyrir íslenskt fjölmenningarsamfélag.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×