Skoðun

Vinnufriður í skólum

Ketill B. Magnússon skrifar
Á komandi vetri er hætta á ófriði í skólum landsins. Kjarasamningar grunn- og framhaldsskólakennara verða lausir. Báðir hópar kennara hafa að undanförnu lýst yfir óánægju með kjör sín. Fram hefur komið að verkföll kennara komi til greina. Á sama tíma er ekki að sjá að viðræður grunnskólakennara við sveitarfélögin eða framhaldsskólakennara við ríkið séu markvissar. Það heyrist í raun afar lítið af þeim.

Full ástæða er fyrir nemendur og skólaforeldra að hafa áhyggjur af verkfallsógninni. Ætla má að við verkfall á báðum skólastigum fari nám rúmlega 40 þúsund grunnskólanema og 16 þúsund framhaldsskólanema úr skorðum. Slíkt rask á vinnuumhverfi nemenda getur haft varanleg áhrif á framtíð þeirra auk neikvæðra áhrifa sem verkföll hafa á fjölskyldur og heimili. Margir foreldrar upplifðu síendurtekin kennaraverkföll í sínu námi og vilja helst að þau heyri fortíðinni til.

Heimili og skóli – landssamtök foreldra fara þess á leit við samningsaðila að þeir hafi velferð nemenda að leiðarljósi í viðræðum sínum og geri allt sem þeir geta til að tryggja vinnufrið í skólum. Það er einfaldlega ekki ásættanlegt að samningaviðræður séu dregnar á langinn í einhvers konar störukeppni sem endar með verkfalli. Báðir deiluaðilar bera mikla ábyrgð gagnvart þeim sem ekki fá sæti við borðið en geta orðið fyrir miklum skaða, börnum og ungmennum.

Foreldrar fara fram á að samningsviðræðurnar verði markvissar: að kraftur verði settur í þær nú þegar, að deilumálin verði sett fram með skýrum hætti, að uppbyggilegum aðferðum byggðum á gagnkvæmum skilningi og sveigjanleika verði beitt og að samningsviðræðurnar fái þann forgang hjá deiluaðilum sem þarf. Er til of mikils mælst? Að því spyrja foreldrar.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×