Viðskipti innlent

Vinna við fimmtu myndina fram undan

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Verið er að bæta aðstöðuna í Hofi.
Verið er að bæta aðstöðuna í Hofi.
Arctic Cinematic Orchestra mun í næstu viku hefja upptökur á tónlist í fimmtu kvikmyndinni. „Við erum að fara að vinna í amerískri kvikmynd, sem heitir Jacob’s Ladder,“ segir Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson tónlistarstjóri.

Arctic Cinematic Orchestra er verkefni sem varð til þegar Þorvaldur Bjarni var ráðinn tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar sem rekur Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hluti af starfsskyldum Þorvaldar er að auka veg sinfónískrar tónlistar á Norðurlandi og með því auka tekjur tónlistarmanna á svæðinu. „Verkefni sem þetta er hrein viðbót við störf hljóðfæraleikaranna hvort sem það er kennsla eða þátttaka í tónleikum sinfóníunnar og getur skapað mun fleiri störf fyrir atvinnutónlistarmenn á Íslandi. Þess vegna var ACO-verkefninu hleypt af stokkunum,“ segir Þorvaldur Bjarni.

Á meðal þeirra sem Arctic Cinematic Orchestra hefur unnið fyrir eru Disney og Sony. Hljómsveitin hefur flutt tónlist fyrir kvikmyndirnar Perfect Guy, arabísku myndina Bilal og svo íslensku myndirnar Hrúta og Fyrir framan annað fólk. Eftir Jacob’s Ladder verður svo farið í íslensk-belgíska kvikmynd sem heitir Lói, þú flýgur aldrei einn, en í myndinni er flutt tónlist eftir Atla Örvarsson en Atli er upphafsmaður ACO-verkefnisins í samstarfi við Þorvald Bjarna. „Lói þú flýgur aldrei einn verður eitt stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar í bili og náttúrlega langstærsta verkefni okkar,“ segir Þorvaldur Bjarni.

Verið er að leggja lokahönd á aðstöðuna í Hofi. Þorvaldur Bjarni segir að þegar það klárist verði starfsemin auglýst í erlendum fagtímaritum. „Við höfum hingað til bara verið að nýta okkar tengsla­net og hreinlega verið heppnir,“ segir Þorvaldur Bjarni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×