Lífið

Villi byrjaður á næstu bók

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Vísindabók Villa 2 lítur dagsins ljós á árinu.
Vísindabók Villa 2 lítur dagsins ljós á árinu. mynd/einkasafn
„Já, ég var að byrja á næstu bók,“ segir Vilhelm Anton Jónsson betur þekktur sem Vísinda-Villi naglbítur. Vísindabók Villa sem kom út á síðasta ári vakti mikla lukku og var hún í þriðja sæti yfir mest seldu bækur ársins 2013.

„Ætli maður sé ekki að svara ákveðnu kalli eftir meiri fróðleik,“ bætir Villi við.

Hann segist sjálfur hafa rosalega gaman að þessu. „Ég er svo innilega forvitinn sjálfur og er að læra svo mikið sjálfur. Ég hef svo gaman af því kynna vísindi fyrir börnum, það er svo gaman að gera þau forvitin.“

Villi segist ekki gera ráð fyrir miklum áherslubreytingum á næstu bók og telur að hún verði í líkingu við þá fyrri.

„Ég stóð í snjóskafli eftir matarboð hjá móður minni á jóladag og fór þá að hugsa út í bókina.“ Villi var þó alveg fram að aðfangadegi að vinna í því að kynna fyrri bókina.

„Þegar ég byrjaði að skrifa fann ég að þetta var enn í puttunum, mér fannst eins og ég hefði bara verið nýbúinn með fyrri bókina.“

Hann vonast til þess að bókin komi út 10. október. „Fyrri bókin kom út 10. október þannig að það væri gaman.“ Hægt er að fylgjast með Villa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×