Enski boltinn

Villas-Boas: Verðum að stöðva Suarez

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Andre Villas-Boas, stjóri Tottenham, segir að það verði helsta verkefni sinna manna í dag að stöðva Luis Suarez, sóknarmann Liverpool.

Liðin eigast við klukkan 16.00 í dag en með sigri kemst Liverpool upp að hlið Chelsea í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Suarez er sjóðandi heitur og hefur skorað fimmtán mörk í síðustu ellefu leikjum.

Tottenham er hins vegar ósigrað í síðustu fimm leikjum sínum í öllum keppnum og Villas-Boas vonast til að halda áfram á sömu braut.

„Suarez er á ótrúlegu skriði. Hann er fullur sjálfstrausts og við verðum að vera meðvitaðir um hans styrkleika. Hann getur tekið leiki yfir,“ sagði Villas-Boas við enska fjölmiðla. „Það verður mjög erfitt að stöðva hann.“

Villas-Boas var mikið gagnrýndur eftir 6-0 tap liðsins gegn Manchester City í síðasta mánuði. „Við brugðumst vel við tapinu og ef okkur tekst að vinna Liverpool verðum við jafnfætis öðrum toppliðum í deildinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×