Erlent

Vill verja tíu prósentum fjárlaga ESB í flóttamenn

Sæunn Gísladóttir skrifar
Einungis eitt prósent þeirra flóttamanna sem átti að flytja frá Grikklandi og Ítalíu hefur verið flutt.
Einungis eitt prósent þeirra flóttamanna sem átti að flytja frá Grikklandi og Ítalíu hefur verið flutt. Nordicphotos/AFP
Þróunarráðherra Þýskalands, Gerd Muller, segir fyrirkomulag Evrópusambandsins til að bregðast við flóttamannastraumi ófullnægjandi, og leggur til að tíu prósentum af fjárlögum ESB verði varið í það að sinna flóttamönnum. Muller leggur til að skipaður verði sérstakur erindreki til að leiða samhæfða evrópska flóttamannastefnu. „Við þurfum að bregðast við þessu með nýjum tólum og mín tillaga varðandi flóttamannavandann er að tíu prósentum af fjármagni Evrópusambandsins verði varið í það að bregðast við krísunni,“ sagði Muller á World Humanitarian ráðstefnunni í Istanbúl. Tíundi hluti fjármagns ESB nemur um 10 milljörðum evra, eða 1.400 milljörðum íslenskra króna.

Fyrir ári brugðust evrópskir leiðtogar við vaxandi flóttamannastraumi með brotakenndum aðferðum og loforðum, margir þeirra hafa ekki náð að efna loforð sín eða hafa ekki brugðist nógu hratt við.

Í september lofuðu Evrópusambandsríkin að flytja 120 þúsund flóttamenn frá Grikklandi og Ítalíu til annarra landa, en hingað til hefur einungis eitt prósent þeirra verið flutt. Sömuleiðis hefur einungis einn sjötti fjármagnsins sem evrópskir og vestrænir leiðtogar lofuðu að senda til Mið-Austurlanda sem hýsa stóran hluta flóttamanna skilað sér. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×