Innlent

Vill að Reykjanesbær selji Víkingaheima

Haraldur Guðmundsson skrifar
Safnið Víkingaheimar stendur við sjávarsíðuna í Reykjanesbæ og geymir meðal annars víkingaskipið Íslending sem Gunnar Eggertsson smíðaði og sigldi til New York árið 2000.
Safnið Víkingaheimar stendur við sjávarsíðuna í Reykjanesbæ og geymir meðal annars víkingaskipið Íslending sem Gunnar Eggertsson smíðaði og sigldi til New York árið 2000. Fréttablaðið/Ernir
„Ég tel að við eigum að selja Víkingaheima eða leigja safnið einhverjum öðrum því það er ekki pláss hér fyrir neinar skrautfjaðrir eins og staða bæjarsjóðs er í dag,“ segir Kristinn Þór Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.

Kristinn lagði fram bókun á fundi bæjarráðs á fimmtudag um að bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ falli frá tillögum um hækkanir á gjaldskrá bæjarins, sem hann segir eingöngu bitna á barnafjölskyldum, og þess í stað selja safnið, leigja reksturinn út eða loka því.

„Safnið hefur verið rekið með tapi síðustu ár og bæjarsjóður gæti sparað sér 25 til 30 milljónir á ári með þessu,“ segir Kristinn.

Kristinn Þór Jakobsson
Víkingaheimar voru opnaðir árið 2009. Safnið er rekið af félaginu Íslendingi ehf. og húsnæðið er í eigu dótturfélagsins Útlendings ehf. Félögin hafa verið í eigu Reykjanesbæjar frá árinu 2011 þegar bærinn breytti rúmlega 100 milljóna króna skuld þeirra í hlutafé. 

Um 22 milljóna tap var á rekstri Íslendings á árinu 2013 samkvæmt ársreikningi félagsins. Samanlagt tap Íslendings síðustu fjögur ár nemur 76 milljónum króna. 

„Þarna er boðið upp á afþreyingu fyrir ferðamenn og aðra, sem er mjög virðingarvert, en ég var á móti þessum kaupum þegar meirihlutinn yfirtók reksturinn á sínum tíma og er það ennþá,“ segir Kristinn.

Friðjón Einarsson
Reykjanesbær skuldar, eins og komið hefur fram, um 40 milljarða króna og sveitarfélagið þarf að spara 900 milljónir króna á ári. Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs, segir rekstur safnsins hluta af því sem bæjaryfirvöld séu nú að skoða til að auðvelda rekstur Reykjanesbæjar. 

„Það eru engar formlegar viðræður í gangi við aðila sem vilja kaupa eða leigja safnið en við erum til í að skoða allt. En að loka safninu hefur ekki verið inni í umræðunni því það er dýrara fyrir okkur að loka því en reka það. Tekjur safnsins eru að aukast sem gerir það að verkum að það er hagkvæmara að reka safnið í dag en að loka því,“ segir Friðjón og heldur áfram:

„En ef einhver góður maður vill koma með fullt af peningum og reka safnið okkur að kostnaðarlausu þá er honum velkomið að hafa samband við okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×