Innlent

Vilja viðræður um fríverslunarsamning við BNA

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þingsályktunartillaga um fríverslunarsamning við Bandaríkin hefur verið lögð fram á Alþingi. Mynd/ Anton.
Þingsályktunartillaga um fríverslunarsamning við Bandaríkin hefur verið lögð fram á Alþingi. Mynd/ Anton.
Utanríkisráðherra mun óska eftir viðræðum við ríkisstjórn Bandaríkja Norður-Ameríku um gerð tvíhliða fríverslunarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna, verði þingsályktunartillaga fjögurra þingmanna þessa efnis samþykkt.

Í greinargerð með tillögunni, sem dreift var á Alþingi í gær, kemur fram að það sé lykilatriði í endurreisn íslensk efnahagslífs að tryggja íslenskum fyrirtækjum bestu mögulegu viðskiptakjör. Tollfrjáls aðgangur að einum stærsta markaði heims, Bandaríkjamarkaði, sé mjög mikilvægur í þessu sambandi. Þingmennirnir segja að með tilkomu fríverslunarsamnings við Bandaríkin myndu bandarískar vörur lækka í verði til hagsbóta fyrir íslenska neytendur og fyrirtæki. Sóknarhagsmunir Íslands liggi í því að tryggja greiðan aðgang að Bandaríkjamarkaði fyrir útflutningsvörur, sérstaklega fiskafurðir og iðnaðarvöru.

Þingmennirnir telja að hagur Bandaríkjamanna yrði einkum sá að þeir gætu nýtt Ísland sem umskipunarhöfn fyrir flutninga á Evrópumarkað. Lega landsins gæti þannig orðið til þess að Ísland yrði milliliður fyrir viðskipti milli Bandaríkjanna og meginlands Evrópu. Þá gæti einnig orðið hagkvæmt að flytja hálfunnar vörur frá Bandaríkjunum til Íslands, fullvinna þær hér á landi og selja í öðrum Evrópulöndum.

Það eru þingmenn úr Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og Vinstri hreyfingunni - grænu framboði sem leggja tillöguna fram. Það eru þau Birgir Þórarinsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Jón Gunnarsson og Ásmundur Einar Daðason.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×