Innlent

Vilja sjálfstæðan Landbúnaðarháskóla á Hvanneyri

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Hörður
Sveitarstjórn Borgarbyggðar vill að sjálfstæði Lanbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri sé tryggt. Þá segir í ályktun sveitarstjórnar sem samþykkt var í dag að skólanum þurfi að tryggja aukið fjármagn til reksturs og heimild til að selja eignir.

„Skólinn hefur ekki farið varhluta af miklum niðurskurði á síðustu árum sem meðal annars hefur leitt til fækkunar starfa á landsbyggðinni. Áframhaldandi sjálfstæði LBHÍ er ein grunnforsenda þess að það takist að skapa störf og efla mannauð og fagumhverfi á landsbyggðinni,“ segir í ályktuninni.

Jafnframt lýsir sveitarstjórn Borgarbyggðar yfir áhuga og metnaði til þess að koma að samtali við ríkisvaldið um eflingu Hvanneyrarstaðar sem háskóla- og fræðastaðar.

„Sveitarstjórn Borgarbyggðar bindur vonir við að ríkisstjórn Íslands muni ötullega framfylgja stefnumótandi byggðaáætlun 2014-2017 sem samþykkt var á síðasta þingi. Þar er m.a. kveðið á um að stuðlað verði að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land með dreifingu starfa á vegum ríkisins og að staðsetning opinberra starfa verði notuð með markvissum hætti til að skapa störf og efla mannauð og fagumhverfi um land allt.“

Þá fagnar sveitarstjórnin ályktun Hollvinasamtaka LNHÍ sem birt var fyrr í vikunni á vef Skessuhorns.

„Stjórn Hollvinafélags Landbúnaðarháskóla Íslands fagnar góðu starfi LBHÍ. Stjórnin telur mjög mikilvægt að þetta góða starf haldi áfram íslenskum landbúnaði til heilla. Stjórnin skorar því á mennta- og menningarmálaráðherra og ríkisstjórnina alla að tryggja stöðu skólans sem sjálfstæðrar og öflugrar stofnunar.“

Skessuhorn hefur eftir Þóri Haraldssyni að ekki megi vanmeta mikilvægi framtíðarmöguleika þessa skóla við að kenna fólki að framleiða og afla fæðu.

„Það líður ekki á löngu þar til Evrópa verður ekki aflögufær. Mér hefur verið sagt að á hverjum degi bætist 260 þúsund munnar við í heiminum sem þarf að metta. Því er sú menntun sem hefur fengist á Hvanneyri og á öðrum stöðum skólans mjög mikilvæg. Það er nauðsynlegt að styrkja hana og efla, til þess að við vitum hvað við getum boðið landinu okkar og umhverfi uppá í nútíð og framtíð.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×