Innlent

Vilja nýtt umhverfismat Þjórsár

Svavar Hávarðsson skrifar
Sérstökum áhyggjum er lýst af Urriðafossvirkjun.
Sérstökum áhyggjum er lýst af Urriðafossvirkjun. vísir/svavar
Stjórn Veiðifélags Þjórsár telur að nýtt umhverfismat sé nauðsynlegt vegna virkjanahugmynda Landsvirkjunar í neðri hluta árinnar. Í nýrri ályktun stjórnar kemur fram að síðan umhverfismat var framkvæmt á árunum 2001 og 2002 hafi laxgengd stóraukist og hrygningarstöðvar og búsvæði vaxið. Sérstaða laxastofnsins í Þjórsá sé mikil enda stærsti sjálfbæri laxastofninn í Norður-Atlantshafi.

Nauðsynlegt sé að komið verði í veg fyrir að unninn verði skaði á stofnum árinnar, enda hagsmunir miklir. Félagið krefst þess að væntanlegir framkvæmdaaðilar búi yfir – svo hafið sé yfir allan vafa – fullnægjandi þekkingu á fjölmörgu er varðar stofnstærð, gönguhegðun, áhrif botnfalls í lónum og áhrif gríðarlegra rennslisbreytinga í farvegum milli lóna. Eins hvernig tryggt verður að lágmarksrennsli fari ekki niður fyrir þau mörk sem sannanlega eru fullnægjandi að mati óháðra vísindamanna og Veiðifélags Þjórsár, virkni seiðaveitna og áhrif á lífslíkur fiska sem fara um vélar virkjana, sérstaklega Urriðafossvirkjunar.

„Ætla má að ekki sé til sá fiskifræðingur, starfsmenn Veiðimálastofnunar meðtaldir, sem telur að sjóbirtingsstofn Þjórsár muni ekki bíða skaða af tilkomu virkjana í neðri hluta Þjórsár. Engar upplýsingar eru til um stofna né gönguhegðun. Þar af leiðir að ekki er minnst á mótvægisaðgerðir af hendi Landsvirkjunar gagnvart sjóbirtingi og látið eins og hann sé ekki til,“ segir í ályktuninni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×