Innlent

Vilja hærri einkunn fyrir börnin sín

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Guðbjörg Ragnarsdóttir, varaformaður Félags grunnskólakennara, segir ýmsar leiðir fyrir foreldra til að fylgjast með námi barna sinna.
Guðbjörg Ragnarsdóttir, varaformaður Félags grunnskólakennara, segir ýmsar leiðir fyrir foreldra til að fylgjast með námi barna sinna. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI
Brögð eru að því að foreldrar þrýsti á kennara um að hækka einkunnir barna þeirra, að því er Guðbjörg Ragnarsdóttir, varaformaður Félags grunnskólakennara, greinir frá.

Í frétt á vef sænska sjónvarpsins segir kennari á efsta stigi grunnskólans í Växjö í Svíþjóð að þrýstingur frá foreldrum sé algengur. Foreldrar kenni kennaranum um einkunnir barnsins, segi að kennarinn vilji eyðileggja framtíð barnsins þeirra, að hann vilji ekki að nemendur standist prófið og að þeir ætli að fara lengra með málið.

„Ég myndi halda að vandinn hér sé sambærilegur,“ segir Guðbjörg.

Hún tekur fram að grunnskólinn hafi aðalnámskrá sem beri að fylgja. „Í henni eru námsmarkmið og nemandinn er metinn út frá þeim. Foreldrar grunnskólanemenda fá upplýsingar um skiladaga verkefna og það er boðið upp á viðtalstíma. Það eru ýmsar leiðir fyrir foreldra til að fylgjast með námi barna sinna.“

Að sögn Guðbjargar senda foreldrar kvartanir, einkum til skólastjórnenda. „Oftar en ekki eru málin afgreidd í skólunum en í einstaka tilfellum hafa foreldrar vísað málum áfram til skólamálanefndar viðkomandi sveitarfélags.“

Könnun á vegum sænska kennarasambandsins í fyrra sýndi að sjö af hverjum tíu kennurum höfðu orðið fyrir þrýstingi frá óánægðum foreldrum. Guðbjörg segir ekki til yfirlit um stöðu slíkra mála hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×