Erlent

Vilja fund með leiðtoga Hong Kong

Freyr Bjarnason skrifar
Óeirðalögreglan beitir piparúða gegn mótmælendum eftir að þúsundir þeirra höfðu lokað aðalgötunni sem liggur að miðstöð fjármálahverfisins í Hong Kong. Mótmælendurnir notuðu regnhlífar til að verjast úðanum.
Óeirðalögreglan beitir piparúða gegn mótmælendum eftir að þúsundir þeirra höfðu lokað aðalgötunni sem liggur að miðstöð fjármálahverfisins í Hong Kong. Mótmælendurnir notuðu regnhlífar til að verjast úðanum. Fréttablaðið/AP
Mótmælendur í Hong Kong hafa krafist þess að leiðtogi borgarinnar fundi með þeim. Ef hann vill það ekki hafa þeir hótað frekari mótmælaaðgerðum.

Leiðtoginn, Leung Chun-ying, sagði í gær að Kínverjar ætluðu ekki að víkja frá ákvörðun sinni um að takmarka kosningaúrbætur í borginni, sem er miðpunktur fjármála í Asíu. „Ef Leung Chun-ying mætir ekki á Almenningstorgið fyrir miðnætti held ég að óumflýjanlegt sé að fleira fólk komi út á göturnar,“ sagði Alex Chow, talsmaður nemendanna.

Hann sagði að þeir væru að íhuga ýmsa kosti í stöðunni, þar á meðal að mótmæla á stærra svæði, krefjast verkfalls verkamanna og hugsanlega setjast að í byggingu í eigu stjórnvalda. Búist er við auknum fjölda mótmælenda á þjóðhátíðardegi Kínverja í dag og talið er að þeir verði í heildina um 100 þúsund.

Xi Jinping, forseti Kína, hét því í þjóðhátíðarræðu sinni að styðja þétt við bakið á hagsæld og stöðugleika í Hong Kong. Hann sagði að stjórnvöld í Peking, höfuðborg Kína, teldu að Hong Kong myndi „skapa enn betri framtíð fyrir hina stóru fjölskyldu móðurlandsins“.

Stjórnvöld í Kína hafa fordæmt mótmælin í Hong Kong, sem mennta- og háskólanemendur hafa staðið fyrir, og segja þau ólögleg. Enn sem komið er hafa þau ekki gripið inn í og hafa því látið hin hálf-sjálfstæðu stjórnvöld í Hong Kong takast á við vandann.

Eftir að Leung Chun-ying hafnaði kröfum nemenda dró úr vonum um skjótfengna lausn á deilunni, sem hefur staðið yfir í sex daga. Mótmælendur hafa lokað götum víða í Hong Kong og hefur þurft að loka mörgum skólum og skrifstofum af þeim sökum. Lögreglan notaði táragas og piparúða á mótmælendur um síðustu helgi en hefur ekki beitt sömu aðferðum síðan þá, enda urðu þær síður en svo til að draga úr mótmælunum.

„Við erum ekki hrædd við óeirðalögregluna, við erum ekki hrædd við táragas, við erum ekki hrædd við piparúða. Við förum ekki í burtu fyrr en Leung Chun-ying segir af sér. Við ætlum ekki að gefast upp, við munum þrauka áfram,“ hrópaði Lester Shum, einn af leiðtogum mótmælenda, yfir mannfjöldann.

Samkomulag um „eitt land, tvö kerfi“

Mótmælendurnir vilja að dregin verði til baka ákvörðun kínverskra stjórnvalda um að dómnefnd þurfi að samþykkja alla frambjóðendur í fyrstu beinu kosningunum í Hong Kong sem eru fyrirhugaðar árið 2017. Kínverjar tóku við stjórn Hong Kong af Bretum árið 1997 og kvað samkomulag þeirra á um „eitt land, tvö kerfi“. Það átti að tryggja þessari fyrrverandi nýlendu Breta aðskilið laga- og hagkerfi í anda vestrænna ríkja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×