Innlent

Vilja fráveitu orkuvers í umhverfismat

Frá upphafi hefur hluti affallsvatnsins streymt út í hraunið við Svartsengi og myndað þar lón. fréttablaðið/valli
Frá upphafi hefur hluti affallsvatnsins streymt út í hraunið við Svartsengi og myndað þar lón. fréttablaðið/valli
Umhverfisstofnun telur að fráveita orkuvers HS Orku í Svartsengi sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því skuli framkvæmdin háð umhverfismati. Það gengur þvert á mat fyrirtækisins sem telur að framkvæmdin muni ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum. Því muni mat á umhverfisáhrifum ekki veita frekari svör um hugsanleg áhrif framkvæmdarinnar en þegar liggja fyrir.

Þetta kemur fram í umsögn UMST til Skipulagsstofnunar dagsettri 31. ágúst um hvort og á hvaða forsendum framkvæmdin skuli háð umhverfismati.

HS Orka hefur í hyggju að leggja niðurgrafna stálpípu 4,5 kílómetra leið frá niðurdælingarsvæði fyrirtækisins vestan við fjallið Þorbjörn til sjávar í Arfadalsvík. Þannig á að leysa frárennslismálin til framtíðar en eins og kunnugt er myndar hluti afrennslis frá Svartsengi Bláa lónið. Samkvæmt starfsleyfi má lónið ekki stækka meira en orðið er og því þarf að leita annarra leiða.

Samkvæmt upplýsingum frá HS Orku um framkvæmdina er fullreynt með að dæla öllum vökvanum aftur niður í jarðhitakerfið og því sé áætluð fráveita eina raunhæfa leiðin til að leysa frárennslismál orkuversins til framtíðar.

UMST segir í umsögn sinni að fjöldi álitamála þurfi frekari skoðunar við. Óvissa sé um áhrif á lífríki sjávar og strandar við Arfadalsvík þar sem er mikið fugla-, strand-, og sjávarlíf. Lögnin muni að auki valda umtalsverðu raski á tveimur svæðum á náttúruminjaskrá, en í náttúruverndaráætlun 2009-2013 er tillaga um að umrætt svæði verði friðlýst.

Umsagnaraðilar vegna framkvæmdarinnar eru Grindavíkurbær, Fornleifavernd, Hafrannsóknastofnun, Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja, Orkustofnun og UMST.

Samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun er stefnt að því að taka ákvörðun um hvort framkvæmdin fer í umhverfismat í næstu viku, eða sem fyrst eftir að öll svör hafa borist.

HS Orka telur að fari framkvæmdin í umhverfismat og niðurstaðan verði jákvæð, þá gætu framkvæmdir hafist haustið 2014, en annars fyrr. Áætlaður kostnaður er um 600 milljónir króna.

Að ljúka matsmáli á einu ári kann vel að vera raunhæft, að mati Skipulagsstofnunar.

svavar@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×