Erlent

Vilja finna þann seka í efnavopnaárásum í Sýrlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna vill kanna beitingu efnavopna í Sýrlandi.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna vill kanna beitingu efnavopna í Sýrlandi. Vísir/EPA
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, vill komast að því hverjir hafa beitt efnavopnum í átökunum í Sýrlandi. Hann hefur sent öryggisráði Sameinuðu þjóðanna bréf þar sem hann leggur til að stofnuð verði alþjóðleg þriggja aðila rannsóknarnefnd, sem verði studd af sérfræðingum.

Sú nefnd ætti að rannsaka hverjir hefðu beitt efnavopnum svo réttlætið gæti náð fram að ganga.

Ríkisstjórn Sýrlands þvertekur fyrir að hafa beitt efnavopnum, eins og Bandaríkin og aðrar vestrænar þjóðir hafa sakað þá um. Þá hefur ríkisstjórnin sérstaklega verið sökuð um að beita tunnusprengjum sem innihalda klór og önnur eiturefni, og varpað er úr þyrlum.

Einnig hafa fregnir borist af því að samtökin Íslamskt ríki, sem stjórna um þriðjungi landsins, hafi einnig beitt efnavopnum á undanförnum mánuðum. Þar á meðal sinnepsgasi.

Ban Ki-moon tekur þó fram í bréfi sínu að umrædd rannsóknarnefnd þurfi stuðning allra deiluaðila í Sýrlandi og þurfi að geta starfað óáreitt þar sem efnavopnaárásir hafi verið gerðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×