Innlent

Vilja bætur frá Svövu í 17 vegna skemmda á húsi

Samúel Karl Ólason skrifar
Svava Þorgerður Johansen og Björn Sveinbjörnsson.
Svava Þorgerður Johansen og Björn Sveinbjörnsson. Vísir/GVA
Nágrannar Svövu í Sautján segja hús sitt hafa orðið fyrir skemmdum vegna framkvæmda við hús Svövu og jarðsigs vegna jarðvegsvinnu. Skemmdirnar eru metnar á eina og hálfa milljón króna. Aðalmeðferð í skaðabótamáli þeirra Guðmundar Magnússonar og Ragnhildar Ásu Gunnarsdóttur gegn þeim Birni Sveinbjörnssyni og Svövu Þorgerði Johansen fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Svava og Björn keyptu hús að Kvistalandi 1 árið 2008 og létu breyta húsinu og byggja við það auk þess sem farið var í jarðvegsvinnu og tjörn steypt upp nærri bílskúr þeirra Guðmundar og Ragnhildar.

Þau halda því fram að framkvæmdirnar hafi valdið skemmdum á heimili þeirra. Meðal annars segja þau að sprungur hafi myndast á veggjum hússins, rennihurð hafi skekkst svo að ekki sé hægt að loka henni, sprungur hafi myndast í flísum og þær losnað og að myndarammar hafi dottið af veggjum.

Ragnhildur Ása Gunnarsdóttir ásamt Sigurði G. Guðjónssyni.Vísir/GVA
Húsin tvö eru á lóð sem er í sameign fjögurra húsa á svæðinu og aðrir íbúar höfðu samþykkt teikningar Svövu og Björns og þar með talin Guðmundur og Ragnhildur. Þau kvörtuðu nokkrum sinnum vegna titrings við verktaka og Svövu og Björn. Þó drógu þau aldrei samþykki sitt til baka, né lögðu fram formlega kvörtun.

Þau sýndu þó Svövu og Birni skemmdirnar sem ræddu við tryggingafélag sitt. Þrátt fyrir að þau væru fulltryggð taldi tryggingafélagið sig ekki vera skylt til að greiða fyrir skemmdirnar.

Matsmenn sem gerðu skýrslu um málið sögðu skaðann nema um einni og hálfri milljón króna. Þó væri ljóst að skaðinn væri ekki allur vegna jarðvegsvinnu við Kvistaland 1, heldur var einnig vegna náttúrulegs jarðsigs í Fossvoginum. Þó sögðu þeir að meira jarðsig hefði átt sér stað þeim megin á lóð Guðmundar og Ragnhildar sem snýr að Kvistalandi 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×