Fótbolti

Vilhjálmur Alvar dæmir hjá Alberti og Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vilhjálmur Alvar Þórarinsson.
Vilhjálmur Alvar Þórarinsson. Vísir/Ernir

Íslenski FIFA-dómarinn Vilhjálmur Alvar Þórarinsson er farinn til Englands þar sem hann mun dæma leik í Unglindadeild UEFA á morgun miðvikudag.

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson mun dæma leik Manchester United Youth og PSV Eindhoven Youth en þetta eru bæði lið skipuð leikmönnum 19 ára og yngri.

Leikurinn fer fram sama dag og aðallið félaganna mætast í Meistaradeild Evrópu. Þessi leikur fer fram á Leigh Sports Village vellinum í Leigh sem er eitt af úthverfum Manchester.

CSKA Moskva er á toppi riðilsins með átta stig en Manchester United liðið er í öðru sæti með fimm stig eða einu stigi meira en lið PSV Eindhoven.

Vilhjálmur Alvar er aðaldómari leiksins en aðstoðardómarar eru Gylfi Már Sigurðsson og Gunnar Sverrir Guðmundsson. Fjórði dómari er síðan Peter Banks frá Englandi.

Þeir Vilhjálmur Alvar, Gylfi Már og Gunnar Sverrir verða þó ekki einu Íslendingarnir á vellinum því Albert Guðmundsson spilar með unglingaliði PSV Eindhoven og hefur tekið þátt í fyrstu fjórum leikjum hollenska liðsins í þessari keppni.

Vilhjálmur Alvar er ekki fyrsti íslenski dómarinn til þess að dæma í riðlakeppni Unglindadeildar UEFA í vetur því Þorvaldur Árnason dæmdi leik Arsenal og Olympiacos.  

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson varð FIFA-dómari í lok síðasta árs en hann kom þá inn fyrir Kristinn Jakobsson sem lagði FIFA-flautuna á hilluna vegna aldurs. Vilhjálmur Alvar Þórarinsson varð þrítugur í ár en hann hefur dæmt í efstu deild í sjö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×