Innlent

Vilborg Arna leggur af stað á síðasta tindinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Komið er að síðasta og jafnframt erfiðasta fjallinu í sjö tinda átaki Vilborgar Örnu Gissurardóttir. Á sunnudaginn fer hún suður á bóginn til Nepal til að klífa fjallið Everest. Í tilkynningu segir að Vilborg ætli sér að verða fyrst íslenskra kvenna til að sigra þetta hæsta fjall jarðar, en það er 8.848 metrar að hæð.

Sjö tinda átak hennar gengur út á að leggja alla hæstu tinda heimsálfanna sjö að baki og ná einnig á báða póla jarðarinnar. Eins og kunnugt er komst Vilborg á suðurpólinn í janúar á síðasta ári og var fyrsti Íslendingurinn sem þangað kemst einn síns liðs.

Þann 3. Apríl leggur Vilborg af stað upp í grunnbúðir Everestfjalls og verður samkvæmt áætlun komin þangað tíu dögum síðar.

„Þá tekur við aðlögunartímabil sem felst í að ganga upp í fyrstu, aðra og þriðju búðir á mismunandi hraða og er dvalið mislengi í hæðinni hvert sinn. Þetta gerir Vilborg þrisvar sinnum áður en fullri aðlögun er náð sem er áætlað að sé í kringum 5.maí,“ segir í tilkynningunni.

Eftir það tekur við um vikhvíld, eða um leið og veður og aðstæður leyfa, áður en Vilborg reynir við toppinn. Samkvæmt áætlun á hún að koma aftur til Íslands þann 7. júní.

Í tilkynningunni segir að Vilborg verði í hópi sex annarra fjallamanna og verði eina konan í þeim hópi, en konur eru í minnihlutahópi þeirra sem klifið hafa Everest fjall.

Vilborg Arna á Suðurpólnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×