Handbolti

Víkingur snýr aftur með lið í meistaraflokk kvenna

Anton Ingi Leifsson skrifar
Díana á hliðarlínunni, en hún mun stýra liði Víkings.
Díana á hliðarlínunni, en hún mun stýra liði Víkings. vísir/getty
Víkingur mun tefla fram liði í meistaraflokki kvenna í handbolta í ár, en liðið hefur ekki tekið þátt í nokkrum ár.

Í fréttatilkynningu frá Víkingum segir að mikið og gott uppbygingarstarf hafa verið unnið í Víkinni undanfarin ár og það sé að skila sér.

Díana Guðjónsdóttir mun stýra liðinu, en undanfarin ár hefur hún þjálfað yngri flokka Víkings. Áður hafði hún til að mynda þjálfað hjá HK og Haukum.

Liðið samdi við tvo öfluga erlenda leikmenn á dögunum; þær Sophie Klapperich frá Þýskalandi og Alinu Molkova frá Eistlandi.

„Víkingur er í mikilli sókn í handboltanum og stórhuga fyrir komandi keppnistímabil bæði í kvenna- og karlaflokki. Víkingur á marga Íslandsmeistaratitla að baki í handbolta kvenna og er þetta því afar mikilvægt skref fyrir félagið," segir Björn Einarsson, formaður Víkings, í tilkynningu frá Víking.

Víkingur verður í fyrstu deild kvenna ásamt sjö öðrum liðum, en deildin hefst í byrjun september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×