Innlent

Viðvaranir bárust ekki notendum Nova

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Vísir/Auðunn
Almannavarnir sendu farsímanotendum í Fjarðarbyggð smáskilaboð með viðvörun vegna brennisteinsmengunar eftir að gríðar há gildi mældust á svæðinu. Skilaboðin bárust þó ýmist ekki eða seint til viðskiptavina Nova. Framkvæmdastjóri Nova hefur fyrir hönd Nova beðist afsökunar á málinu. Austurfrétt greinir frá.

Styrkur brennisteinsdíoxíðs hefur aldrei mælst eins hár hér á landi eins og í gærkvöld, en hæstu gildin voru tæplega 4000 míkrógrömm á rúmmetra. Fólk var því hvatt til að halda sig innandyra en mengunin getur meðal annars valdið ertingu í hálsi og augum.

Smáskilaboðin voru send á vegum Almannavarna til allra farsímanotenda á Fáskrúðsfirði, Eskifirði og Reyðarfirði frá klukkan 23.05-23.15 í gærkvöldi. Farsímanotendur Nova fengu þó ekki skilaboðin en um var að ræða bilun í kerfi Nova.

„Þetta er vissulega mál sem við tökum mjög alvarlega og munum gera allt sem við getum til að tryggja öryggi skilaboða sem þessara," segir Liv  Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova í samtali við Austurfrétt.

Spár gefa til kynna að hár styrkur brennisteinsgass og annarra gosefna gæti orðið á norðanverðum Austfjörðum, Fljótsdal, Héraði, Jökuldal og á Langanesi í dag. Þá eru líkur á að styrkur gæti aukist á norðausturlandi er líða fer á daginn.

Landlæknisembættið hefur sent frá sér tilkynningu vegna þeirra miklu mengunar sem stafar af gosinu en í tilkynningunni er fólk með undirliggjandi astma og aðra öndunarfærasjúkdóma hvatt til að hafa öndunarfæralyf ávallt tiltæk. Þá séu börn jafnframt hvött til að halda sig innandyra.

Umhverfisstofnun hvetur  fólk til að fylgjast með loftgæðum á vefsíðunni ust.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×