Viðskipti innlent

Viðskipti við Rússa ganga sinn vanagang

Svavar Hávarðsson skrifar
Verð íslenskra sjávarafurða í Rússlandi helst svipað og fyrir bann.
Verð íslenskra sjávarafurða í Rússlandi helst svipað og fyrir bann. Fréttablaðið/óskar
Spár um mikil áhrif af innflutningsbanni Rússa á vöruinnflutning frá Noregi og Evrópusambandsríkjunum á verðmyndun íslensks sjávarfangs til hækkunar hafa ekki ræst. Ekkert ber á því að Norðmenn reyni að koma sínum afurðum á Rússlandsmarkað með því að landa í Færeyjum eða hér á landi.

Friðleifur Friðleifsson, framkvæmdastjóri sölusviðs Iceland Seafood, segir að helsta breytingin sé að íslenskir söluaðilar fari mun varlegar á Rússlandsmarkaði en áður var.

„Mörg fyrirtæki höfðu unnið mikið starf við að verða sér úti um greiðslufallstryggingar á rússnesk fyrirtæki. Viðskiptabannið varð þess valdandi að fyrirtækin misstu þessar tryggingar.

Viðskiptahættir hafa horfið aftur um mörg ár því nú þarf að biðja um fyrirfram greiðslur, eða selja upp á kredit,“ segir Friðleifur og að sent sé minna magn í einu, en í staðinn örar.

Sögur um að Norðmenn séu með einhverjar kúnstir við að koma fiski á markað með löndunum á Íslandi og Færeyjum telur Friðleifur að séu úr lausu lofti gripnar. Norðmenn séu ábyrgir í sínum viðskiptaháttum, og taki enga áhættu með mikilvægan markað til lengri tíma.

Friðleifur segir að verð á íslensku sjávarfangi, aðallega síld og makríl, sé áþekkt og á undanförnum árum. „Við tökum þessu rólega og vinnum þetta frá viku til viku,“ segir Friðleifur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×