Innlent

Viðræðurnar hægfara en þokuðust í rétta átt

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
"Þetta gekk eiginlega sinn vanagang, fremur hægt en þó í rétta átt,“ segir Árni Stefán Jónsson formaður SFR. Hann sést hér til vinstri en þá var hann staddurí kröfugöngu SFR fyrr í dag.
"Þetta gekk eiginlega sinn vanagang, fremur hægt en þó í rétta átt,“ segir Árni Stefán Jónsson formaður SFR. Hann sést hér til vinstri en þá var hann staddurí kröfugöngu SFR fyrr í dag. vísir/gva
Samningafundi í kjaradeilu SFR, sjúkraliða og lögreglumanna gegn ríkinu lauk skömmu fyrir klukkan tíu í kvöld en fundurinn hófst klukkan tvö í dag. Að sögn formanns SFR var árangur af fundinum. Annar fundur hefur verið boðaður klukkan tíu í fyrramálið.

„Þetta gekk eiginlega sinn vanagang, fremur hægt en þó í rétta átt,“ sagði Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, í samtali við Vísi að fundi loknum. „Það kom ekkert alvarlegt upp á og málið er bara í sínu eðlilega ferli.“

Fyrstu verkfallslotunni lauk í dag en þó eru nokkrir félagsmenn sem verða áfram í verkfalli. Félagar í SFR sem starfa hjá sýslumannsembættum, ríkisskattsjóra, tollstjóranum og Landspítalanum verða áfram í verkfalli og sömu sögu er hægt að segja um sjúkraliða Landspítalans og heilbrigðisstofnanna Suður- og Austurlands. Þeir verða í verkfalli fram að helgi. Náist samningar ekki fyrir 29. október hefst önnur verkfallslota þá.

„Það er erfitt að segja hvort samningar nást fyrir þann tíma eður ei. Maður veit aldrei hvort maður strandar á skeri eða hve langan tíma þetta mun taka,“ segir Árni Stefán. „Í gegnum tíðina hefur maður oft haldið að það væri stutt í að þetta klárist en það hefur oft tekið mun meiri tíma en maður gerði sér í hugarlund.“

Líkt og áður hefur verið sagt verður næsti fundur í fyrramálið klukkan tíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×