Innlent

Viðræður við Breta í forgang hjá EFTA

Ásgeir Erlendsson skrifar
Of snemmt er að segja til um hvers konar viðskiptasamningur verður fyrir valinu milli Íslands og Bretlands. Þetta segir utanríkisráðherra sem bendir á að Íslendingar þurfi að nýta sér formennsku í EFTA í viðræðunum og hefur óskað eftir að málið verði í forgangi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra voru fulltrúar Íslands á leiðtogafundi Atlandshafsbanalagsins sem fram fór í Varsjá um helgina. Lilja Dögg átti fund með Philip Hammond, utanríkisráðherra Breta, þar sem sameiginlegir viðskiptahagsmunir þjóðanna voru ræddir. Lilja segir að í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar þar sem Bretar samþykktu að ganga úr Evrópusambandinu séu þeir nú að fara gaumgæfulega yfir sína stöðu og viða að sér upplýsingum um viðskiptasamninga annarra þjóða.

„Nú eru þeir að vinna sína heimavinnu. Svo þegar það er komin ný forysta og ný ríkisstjórn þá er nokkuð ljóst að þeir fari að sýna sín spil.“ Segir Lilja Dögg. 

Íslendingar tóku við formennsku í EFTA og tveim­ur lyk­il­stofn­un­um EES-sam­starfs­ins í Brus­sel í síðustu viku og munu stýra þeim til áramóta. Lilja segir mikilvægt að Ísland haldi góðum tengslum við Breta og nýti sér formennsku í EFTA til að efla efnahags og viðskiptatengsl við Bretland.

„Það er okkur alveg gríðarlegt hagsmunamál. Þetta er okkar stærsta viðskiptaríki. Þetta skiptir okkur mjög miklu máli. Við erum núna formennskuríki hjá EFTA og við þurfum að nýta okkur það mjög vel og ég hef þegar sett það á að þetta verði forgangsmál hjá EFTA.“ 

Íslendingar þurfi að fylgjast mjög vel með hvernig Bretar ætla að haga sínum málum við Evrópusambandið og nokkrir kostir séu í stöðunni. Of snemmt sé að segja til um hvaða leið verði valin.

„Það er möguleiki að gera tvíhliða samning við Bretland. EFTA ríkin geta líka gert samning við Bretland og svo hugsanlega að EES ríkin myndu koma inn í útgöngusamning. Það er mjög erfitt á þessum tímapunkti að segja til um hvaða leið verði valin.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×