Innlent

VG Vilja rannsaka stuðning Íslands við loftárásir á Líbíu

Frá mótmælunum í Líbíu.
Frá mótmælunum í Líbíu.
Flokksráðsfundur Vinstri grænna samþykkti á fundi sínum um helgina að beina því til Alþingis að skipuð verði rannsóknarnefnd til að rannsaka aðdraganda þess að Ísland samþykkti aðgerðir Atlantshafsbandalagsins gegn Líbíu, sem fólu meðal annars í sér loftárásir.

Þá fordæmir fundurinn loftárásirnar sem fundurinn telur að hafi meðal annars beinst  að borgaralegum skotmörkum og ollið miklu tjóni og dauða fjölda óbreyttra borgara.

Svo segir orðrétt í ályktuninni: „ Hvort með þeim hafi verið komið í veg fyrir verra ástand er ómögulegt að segja en hins vegar er ljóst að heimsvaldahagsmunir vestrænna ríkja og ekki síst olíuhagsmunir réðu miklu þessar aðgerðir“.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði í viðtali við Fréttablaðið í mars síðastliðnum, að aðkoma Íslands að ákvörðun NATO um að taka við samræmingu aðgerða í Líbíu væri í fullu samræmi við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem ríkisstjórnin hafi veitt formlegt samþykki á sínum tíma.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna, aftók með öllu að aðgerðirnar nytu stuðnings flokksins og sagði orðrétt á Alþingi í lok mars, aðspurður hvort þingflokkurinn styddi ákvörðunina: „Nei, við gerum það ekki enda vorum við ekki spurð.“

Hægt er að lesa ályktun fundarins í heild hér fyrir neðan:

„Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 26.-27. ágúst 2011 vísar til ályktunar frá fundi sínum 20.- 21. maí 2011 og ítrekar fordæmingu sína á loftárásum Atlantshafsbandalagsins á Líbíu. Fundurinn beinir því til Alþingis að skipuð verði rannsóknarnefnd til að rannsaka aðdraganda þess að Ísland samþykkti þessar aðgerðir. Þessar árásir beindust meðal annars að borgaralegum skotmörkum og ollu miklu tjóni og dauða fjölda óbreyttra borgara. Hvort með þeim hafi verið komið í veg fyrir verra ástand er ómögulegt að segja en hins vegar er ljóst að heimsvaldahagsmunir vestrænna ríkja og ekki síst olíuhagsmunir réðu miklu þessar aðgerðir. Fundurinn lýsir yfir stuðningi við alþýðu Líbíu og fordæmir hvers kyns kúgun og arðrán þar sem annars staðar. Jafnframt fagnar fundurinn þingsályktunartillögu þingmanna VG um úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu sem lögð var fram á Alþingi 30. maí síðastliðinn.“

Hægt er að nálgast frekari ályktanir fundarins hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×