Innlent

Verslun og strætó þarf að vera í göngufæri

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Hælisleitendur hafa síðustu ár flestir haft aðsetur í Reykjanesbæ.
Hælisleitendur hafa síðustu ár flestir haft aðsetur í Reykjanesbæ. Fréttablaðið/GVA
Útlendingastofnun leitar nú að húsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem nota á sem vistarverur fyrir hælisleitendur.

Fram kemur í auglýsingu Ríkiskaupa, fyrir hönd ríkissjóðs, sem tekur húsnæðið á leigu fyrir Útlendingastofnun, að miðað sé við að húsnæðið verði tekið á leigu til tólf mánaða með möguleika á framlengingu til annarra tólf mánaða.

„Gerð er krafa um að húsnæðið sé á höfuðborgarsvæðinu, sé í göngufæri við matvöruverslun/verslanir og nálægt almenningssamgöngum,“ segir á vef Ríkiskaupa.

Þá er miðað við að húsnæðið verði um 500 fermetrar að stærð, miðað við lágmarkslofthæð gildandi byggingarreglugerðar. „Í húsnæðinu skulu vera 25 til 30 herbergi,“ segir þar jafnframt.

Þá kemur fram á vef Rauða kross Íslands að þar á bæ sé leitað að sjálfboðaliðum til að starfa með hælisleitendum og flóttafólki.

„Verkefnin eru fjölbreytt og gefandi en staðið er fyrir ýmsum viðburðum sem draga úr félagslegri einangrun flóttamanna og hælisleitenda,“ segir á vef Rauða krossins.

Tekið er fram að reglulega sé staðið fyrir viðburðum á borð við spilakvöld, spurningaleiki, matarmenningarhátíðir, kvikmyndakvöld og jafnvel dagsferðir þar sem flóttamenn og hælisleitendur fái tækifæri til að sjá helstu náttúruperlur landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×